Upp­gjörið: Njarðvík-Keflavík 88-77 | Danielle og Brittany fóru á kostum

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Njarðvíkurkonur spiluðu vel í kvöld og hjálpa hér Danielle Rodriguez upp af gólfinu. Rodriguez var með þrennu í kvöld.
Njarðvíkurkonur spiluðu vel í kvöld og hjálpa hér Danielle Rodriguez upp af gólfinu. Rodriguez var með þrennu í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Njarðvíkurkonur mættu vængbrotnar til leiks en unnu engu að síður sannfærandi sigur á nágrönnum sínum í Keflavík. Njarðvík vann á endanum með ellefu stiga mun, 88-77. 

Brittany Dinkins og Danielle Rodriguez voru frábærar í forföllum hinnar handbrotnu Paulinu Hersler; Dinkins skoraði 34 stig og Danielle var með þrefalda tvennu; 24 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Keishana Washington skoraði 32 stig fyrir Keflavík.

Inga Lea Ingadóttir í baráttunni við Keishana Wahsington í kvöldHulda/Vísir

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og setti Brittany Dinkins tóninn með því að setja þriggja stiga körfu til að opna leikinn. Njarðvík náði að komast skrefinu framar og halda sér fyrir framan Keflavík eftir því sem leið á leikhlutann.

Njarðvík leiddi 27-20 eftir fyrsta leikhluta en Danielle Rodriguez lokaði leikhlutanum með því að klára fjögura stiga sókn fyrir Njarðvík eftir að hafa sett niður þrist og sótt snertingu til að fá vítið að auki sem hún setti niður.

Keflavík setti fyrstu stig annars leikhluta á töfluna og mættu með hörku baráttu. Sara Rún Hinriksdóttir var að vanda gríðarlega öflug í liði Keflavíkur og átti Njarðvík í örlitlu basli með hana í teignum.

Sara Rún Hinriksdóttir í leiknum í kvöld.Hulda/Vísir

Á hinum endanum átti Keflavík í örlitlu basli með að halda aftur af hraðanum í Brittany Dinkins sem var dugleg að sprengja upp völlinn þegar tækifærið gafst. Þegar liðin gengu til hálfleiks var staðan 49-42 Njarðvík í vil.

Njarðvík var áfram skrefinu á undan í þriðja leikhluta og má þakka Brittany Dinkins fyrir það sem var stórkostleg í liði Njarðvíkur. Hún var að setja stór skot auk þess að búa til heilan helling fyrir liðsfélaga sína. Keflavík átti í fullu fangi með að reyna halda aftur af henni.

Helena Rafnsdóttir í baráttunniHulda/Vísir

Það voru tólf stig sem skildu liðin af eftir þriðja leikhluta og var Njarðvík með yfirhöndina 73-61.

Það var hörku barátta í fjórða leikhluta og þó svo að Njarðvík hafi verið lengi að komast í gang með stig á töfluna þá voru þær að rústa Keflavík í frákastabaráttunni og átu því hellings tíma af klukkunni á meðan en tíminn vann með Njarðvík.Njarðvík var svo sterkari á endasprettinum og fór að lokum með mjög svo sannfærandi og öruggan ellefu stiga sigur 88-77.

Atvik leiksins

Njarðvík tók ég veit ekki hvað mörg sóknarfráköst í röð sem endaði svo með innkasti þegar það voru 0.7 sek á klukkunni. Auðvitað finna þær Brittany Dinkins aleina úti á velli sem neglir þristinum niður fyrir Njarðvík.

Stjörnur og skúrkar

Brittany Dinkins var stórkostleg í kvöld. Lék sér að liði Keflavíkur á köflum. Hún endaði stigahæst með 34 stig.

Dani Rodriguez var þá einnig öflug og skilaði þrefaldri tvennu en hún setti 24 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Hjá Keflavík var Keishana Washington atkvæðamest með 32 stig.

Hörður Axel VilhjálmssonHulda/Vísir

Skúrkar eru klárt mál þjálfarateymi Keflavíkur sem sáu sér ekki fært að mæta í viðtöl eftir leik. Gríðarleg vonbrigði verður bara að segjast.

Dómararnir

Það var eitt og annað sem hægt væri að pikka út frá tríóinu í kvöld en heilt yfir þá var þetta bara þokkalegasta frammistaða.

Stemingin og umgjörð

Það var vel mætt í IceMar höllina í kvöld eins og við mátti búast þegar þessi nágrannalið mætast. Vel stutt við bakið á báðum liðum og stemningin eftir því. Umgjörðin hér í IceMar höllinni er svo alltaf upp á 11,5.

Viðtöl

Einar Árni Jóhannsson þjálfari NjarðvíkurHulda/Vísir

„Fannst við stýra hraðanum algjörlega“

„Frábær sigur og bara virkilega stoltur af stelpunum“ sagði Einar Árni Jóhannsson eftir sigurinn í kvöld. 

„Kraftur, áræðni og mikið hugrekki allan leikinn. Við vorum ekkert að hitta frábærlega fyrir utan þriggja stiga línuna ef Britt [Brittany Dinkins] er undanskilin“

„Helena [Rafnsdóttir], Hulda María [Agnarsdóttir] og Sara Björk [Logadóttir] voru bara óhræddar og við gerðum gríðarlega vel í fráköstum og tökum einhver 24 sóknarfráköst sem sýnir bara elju, vilja og dugnað. Við lögðum áherslu á það að við ætluðum að sækja sóknarfráköst“

„Góð stjórn á því sem við vorum að gera í seinni hálfleik sóknarlega. Mér fannst við stýra hraðanum algjörlega og frábær liðssigur“ sagði Einar Árni Jóhannsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira