Uppgjörið: Valur - Njarðvík 94-86 | Valur átti síðasta áhlaupið og tryggði sér sigurinn Hjörvar Ólafsson skrifar 5. desember 2025 20:54 Stjarnan - Valur Valur lagði Njarðvík að velli, 94-86, þegar liðin áttust við í níundu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna. Njarðvík var 24-29 yfir eftir fyrsta leikhluta og Dwayne Lautier sá til þess að gestirnir fóru með 50-51 stöðu inn í búningsklefa í hálfleik. Lautier skoraði síðustu stig fyrri hálfleiks af vítalínunni en leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn vildu meina að Lautier væri að floppa helst til mikið í leiknum og létu óánægju sína með það berlega í ljós. Hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá hinu í þriðja leikhluta og Valsmenn fóru með eins stigs forskot, 74-73, inn í fjórða og síðasta leikhlutann. Um miðjan fjórða leikhluta náðu leikmenn Vals svo góðum kafla og Kristófer Acox kom heimamönnum tíu stigum yfir, 87-77, þegar um það bil fimm mínútur voru eftir af leiknum. Njarðvík náði ekki að velgja Val almennilega undir uggum á lokakafla leiksins og niðurstaðan átta stiga sigur Vals sem hefur þar af leiðandi 12 stig og situr í fjórða sæti deildarinnar. Grindavík er á toppnum með 16 stig og Tindastóll og Keflavík koma í humátt með 14 stig hvort lið. Njarðvík, KR, ÍR og Álftanes eru svo í einum hnapp í fimmta til áttunda sæti með átta stig hvert lið. Keyshawn Woods spilaði sinn fyrsta leik í Valstreyjunni í þessum leik en hann hafði hægt um sig framan af leik og var kominn með sex stig í hálfleik. Þegar upp var staðið hafði Woods skilað 13 stigum, sex fráköstum og tveimur stoðsendingum á töfluna og frumraun hans fyrir Val bara með fínasta móti. Valur UMF Njarðvík Bónus-deild karla
Valur lagði Njarðvík að velli, 94-86, þegar liðin áttust við í níundu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna. Njarðvík var 24-29 yfir eftir fyrsta leikhluta og Dwayne Lautier sá til þess að gestirnir fóru með 50-51 stöðu inn í búningsklefa í hálfleik. Lautier skoraði síðustu stig fyrri hálfleiks af vítalínunni en leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn vildu meina að Lautier væri að floppa helst til mikið í leiknum og létu óánægju sína með það berlega í ljós. Hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá hinu í þriðja leikhluta og Valsmenn fóru með eins stigs forskot, 74-73, inn í fjórða og síðasta leikhlutann. Um miðjan fjórða leikhluta náðu leikmenn Vals svo góðum kafla og Kristófer Acox kom heimamönnum tíu stigum yfir, 87-77, þegar um það bil fimm mínútur voru eftir af leiknum. Njarðvík náði ekki að velgja Val almennilega undir uggum á lokakafla leiksins og niðurstaðan átta stiga sigur Vals sem hefur þar af leiðandi 12 stig og situr í fjórða sæti deildarinnar. Grindavík er á toppnum með 16 stig og Tindastóll og Keflavík koma í humátt með 14 stig hvort lið. Njarðvík, KR, ÍR og Álftanes eru svo í einum hnapp í fimmta til áttunda sæti með átta stig hvert lið. Keyshawn Woods spilaði sinn fyrsta leik í Valstreyjunni í þessum leik en hann hafði hægt um sig framan af leik og var kominn með sex stig í hálfleik. Þegar upp var staðið hafði Woods skilað 13 stigum, sex fráköstum og tveimur stoðsendingum á töfluna og frumraun hans fyrir Val bara með fínasta móti.