Upp­gjör: Tindastóll-ÍA 102-87 | Stólarnir unnu bangsaleikinn

Arnar Skúli Atlason skrifar
Ármann - Tinstastóll Bónus Deild Karla Haust 2025
Ármann - Tinstastóll Bónus Deild Karla Haust 2025 vísir/Diego

Tindastóll komst aftur á sigurbraut í Bónusdeild karla í körfubolta eftir sannfærandi fimmtán stiga sigur á nýliðum Skagamanna í Síkinu.

Tindastóll vann leikinn 102-87 en þeir voru með forystuna frá upphafi leiks. Þetta var svokallaður bangsaleikur, styrktarleikur fyrir Einstök börn, og heimamenn unnu öruggan sigur en þeir töpuðu illa í síðasta leik fyrir landsleikjahlé.

Skagamenn hafa staðið vel upp á Skaga en þetta var fjórða tap liðsins í röð á útivelli.

Tindastóll vann nokkuð þægilegan sigur á ÍA í kvöld 102-87 en leikið var á Sauðárkróki fyrir fullu íþróttahúsi.

Það var mikið jafnræði með liðunum í upphafi leiks. Bæði lið voru að skiptast á körfum en Tindastóll var sterkari og leiddi. Hjá Tindastól voru Taiwo Badmus og Dedrick Basile vel tengdir. Hinu megin voru Dibaji Walker og Ilja Dokovic mikið til að sjá um stigaskorun eða búa til færi fyrir félaga sína. Tindastóll leiddi eftir 1. leikhluta 30-27.

Það voru strákarnir frá Skaganum sem bitu frá sér í upphafi annars leikhluta. Þeir komust yfir og voru að þvinga Tindastól í erfiða hluti. En þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum byrjuðu Tindastóll að stinga þá af og þetta fór úr jöfnum leik í 15 stiga forystu heimamanna. ÍA náði að klóra í bakkann í lok fjórðungsins en Tindastóll leiddur í hálfleik 55-42.

Þessi sprettur hjá Tindastól í lok fyrri hálfleiks var það sem skildi liðin að í dag. Munurinn í seinni hálfleiknum hélst sá sami allan hálfleikinn og leikurinn varð aldrei spennandi. Alltaf þegar ÍA reyndi að koma til baka kom svar frá liði Tindastóls strax á móti og munurinn fór aldrei undir 10 stigin.. Tindastóll sigldi þessu þægilega heim 102-87.

Atvik leiksins

Spretturinn hjá Tindastól í lok 2. leikhluta sem vann leikinn fyrir þá. Þeir komu þessu upp í forystu sem ÍA gat ekki unnið til baka.

Stjörnur

Arnar Björnsson og Ragnar Ágústsson voru með sitthvor 19 stigin í liði Tindastóls. Taiwo Badmus og Dedrick Basile voru með 18 stig.

Hjá ÍA var Gojko Zudzum með 25 stig og 7 fráköst.

Dómararnir

Þetta var auðveldur dagur í dag hjá þeim. Leikurinn rúllaði vel og þeir höfðu góð tök á þessu í dag.

Stemmingin og umgjörð

Ótrúlega gaman að sjá hvað margir gerðu sér leið á völlinn í kvöld. Ágóðinn af leiknum rann til einstakra barna og þegar Tindastóll skoraði fyrstu þriggja stiga körfuna í kvöld. Þá rigndi inn böngsum á völlinn sem verða svo gefnir einstökum börnum.

Arnar Guðjónsson er þjálfari Tindastólsliðsins.vísir/Diego

„Nú er að taka við ótrúlega skemmtileg törn hjá okkur“

Arnar Guðjónsson þjálfari Tindastóls var kátur að komast aftur á sigurbraut í deildinni í kvöld.

„Það var gott að ná í sigur og gott að byrja aftur. Þessi pása var mjög löng,“ sagði Arnar.

ÍA kom Tindastól aðeins á óvart í leiknum. „Mér fannst ÍA spila af krafti. Þeir voru að gera helling af hlutum sem við vorum í basli með,“ sagði Arnar.

Arnar hefði viljað ná að klára leikinn fyrr.

„Þetta var aldrei búið. Þetta var 10 stig mjög lengi. Það hefði verið gott að við hefðum getað slíta okkur aðeins frá þeim.“

Það eru spennandi vikur framundan hjá Tindastól fyrir jólafrí.

„Gott að ná í þennan sigur. Nú er að taka við ótrúlega skemmtileg törn hjá okkur. Það eru fjórir leikir eftir fram að jólafríi. Við erum að fara norður á Akureyri á morgun að gefa bangsa og svo erum við farnir til Eistlands á sunnudaginn. Bara ótrúlega gaman að vera í þessum hóp,“ sagði Arnar.

Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari ÍAJón Gautur

„Bara sár með part af leiknum“

Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari ÍA, var sáttur með sína menn í kvöld þrátt fyrir tap.

„Bara sár með part af leiknum. Mér fannst við heilt yfir eiga fínan leik. Það var partur í öðrum leikhluta sem við gáfum þeim forystu sem við náðum aldrei að klóra til baka,“ sagði Óskar.

ÍA slakaði aðeins á í lok annars fjórðungs sem var banabitinn í kvöld.

„Þetta er lið sem spila þannig. Þú verður að vera tilbúinn í 40 mínútur á móti þeim og um leið og þú sofnar kemur eitthvað hraðaupphlaup í bakið á þér eða þristur frá góðum skotmönnum,“ sagði Óskar.

Óskar er sáttur með tímabilið. Þeir vissu að þetta yrði erfiður vetur en margt jákvætt er við tímabilið til þessa.

„Auðvitað vill maður alltaf meira. Sérstaklega eftir svona tapleik. Maður vill bara vinna alla leiki og allt það. Maður vissi að þetta yrði erfitt tímabil og maður er ánægður með að hafa tekið þessa leiki og ætlar að halda því bara áfram,“ sagði Óskar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira