Skoðun

Veljum ís­lensk jóla­tré – styðjum skóg­rækt og um­hverfið

Ragnhildur Freysteinsdóttir skrifar

Jólatré eru ómissandi hluti jólahaldsins hjá flestum landsmönnum. Siðurinn barst til landsins seint á 19. öld með dönskum kaupmönnum. Þar sem sígræn tré uxu ekki á Íslandi var þörf á innflutningi. Þar til ræktun hófst, var algengt að Íslendingar útbyggju heimagerð jólatré úr tréstoðum vöfðum sígrænu efni úr náttúrunni eins og sortulyngi, krækilyngi og eini. Slík tré voru notuð fram yfir miðja síðustu öld.

Ræktun á jólatrjám hérlendis hófst um það leyti. Fyrstu íslensku jólatrén komu á markað í kringum 1970 og til að byrja með var rauðgreni aðaltegundin. Í dag eru jólatré ræktuð víða, bæði hjá skógræktarfélögum um allt land, skógarbændum og í þjóðskógunum. Áætla má að felld verði í kringum 10.000 jólatré hér á landi þetta árið, bæði heimilistré, torgtré sem prýða bæjarfélög um allt land og svokölluð tröpputré. Einnig eru greinar klipptar og seldar og notaðar í skreytingar.

Margar tegundir sígrænna trjáa henta sem jólatré. Stafafura hefur verið vinsælasta jólatréð hér síðustu áratugi. Hún er dökkgræn, ilmar vel og fellir ekki barrið ef vel er hugsað um hana. Stafafuran hentar vel til skreytinga þar sem nokkuð rúmt er á milli greinakransa.

Auk stafafuru er höggvið blágreni, sitkagreni og fjallaþinur sem jólatré ásamt hinu hefðbundna, þétta og ilmandi rauðgreni sem heldur hefur látið undan, síga því blágreni og sitkagreni halda nálum sínum betur en rauðgrenið.

Undanfarin ár hefur það notið sívaxandi vinsælda að skógræktarfélög, skógarbændur og Land og skógur bjóði almenningi í skógana á aðventunni. Víða er boðið upp á að fólk geti valið sér tré og höggvið sjálft. Sums staðar eru komnir markaðir eða viðburðir í tengslum við þessa skemmtilegu hefð. Hjá mörgum fjölskyldum er slíkt orðið fastur liður í jólaundirbúningi og veitir kærkomið frí frá jólastressinu að koma út í skóg.

Jólatré eru lifandi og meðhöndlun þeirra skiptir miklu máli. Nýhöggvið tré þarf að standa á köldum stað þangað til það er tekið inn í stofu. Þegar jólatréð er sett í fót er gott að saga þunna sneið neðan af stofninum og stinga því í beint í jólatrésfót með vatni. Sumir setja sjóðandi vatn ofan í fótinn þegar tréð er komið í til að opna fyrir viðaræðarnar svo trén nái að draga upp vatn. Eftir það verður að vökva trén með köldu vatni og gæta þess að ekki þorni í fætinum, sérstaklega fyrstu dagana meðan tréð er að fylla sig af vatni. Ef þessum reglum er fylgt stendur tréð ferskt og ilmandi allar hátíðirnar.

Íslensk jólatré eru umhverfisvænni en innflutt lifandi tré eða gervitré. Þau eru ræktuð án eiturefna, ólíkt þeim trjám sem flutt eru til landsins. Erlendis þarf almennt að nota illgresis- og skordýraeitur við ræktun trjánna. Íslensku trén eru flutt stutta leið á markað, hafa minna kolefnisspor og eftir hátíðarnar eru þau endurunnin og nýtt í moltugerð. Lifandi tré eru alltaf umhverfisvænni en gervitré úr plasti sem flutt eru yfir hálfan hnöttinn og ill- eða ómögulegt er að endurvinna þegar þeim er hent.

Íslensku trén eru oftast hluti af grisjun skógarreita, sem gengur ekki á skóglendi heldur stuðlar að betri vexti eftirstandandi trjáa. Með því að velja íslenskt jólatré styður þú beint við skógrækt á Íslandi, en fyrir hvert selt tré er hægt að gróðursetja 30–40 ný tré, auk þess sem tekjur af jólatrjám nýtast til uppbyggingar skóga til útivistar og yndis almennings.

Nánari upplýsingar um sölustaði jólatrjáa má finna á skog.is/jolatrjaavefurinn/.

Veljum íslenskt!

Höfundur er verkefnastjóri hjá Skógræktarfélagi Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×