Matur

Þakkargjörðarveisla að hætti Evu Lauf­eyjar

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir Vísir/Vilhelm

Þakkargjörðarhátíðin, eða Thanksgiving, er haldin hátíðleg á morgun. Hún á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna en hefur fest sig í sessi hjá mörgum hér á landi, þar sem fjölskylda og vinir koma saman til að njóta samveru og hátíðlegra veitinga, oftast með kalkún á borðum.

Eva Laufey Kjaran, dagskrárgerðarkona og markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups, er ein þeirra sem fagnar deginum ár hvert. Síðastliðinn sunnudag bauð hún stórfjölskyldunni í ljúffenga þakkargjörðarmáltíð og deilir nú uppskriftum að kræsingunum úr veislunni með lesendum Vísis.

Kalkúnaskip með öllu tilheyrandi

Eva Laufey bauð upp á smjörsprautað kalkúnaskip með öllu tilheyrandi. Hún setti kalkúnin í eldast mót ásamt smá soðnu vatni í botninn til að fá auka soð fyrir sósuna.

„Ég einfaldaði líka matarboðið með því að kaupa tilbúna fyllingu sem var svakalega góð — það eina sem þarf að gera er að setja hana í fallegt form og baka í ofninum,“ segir Eva.

Hráefni:

  • 3 kg smjörsprautað kalkúnaskip 
  • Salt og pipar
  • Smjör, magn eftir smekk
  • 1 askja fylling með beikoni og eplum, tilbúin fylling.

Aðferð:

1. Hitið ofn í 180°C.

2. Setjið smá smjör eða olíu í botninn á fatinu og setjið kalkúnaskipið yfir. Kryddið með salti og pipar.

3. Eldið kalkúnaskipið eftir leiðbeiningum á pakkanum en það er sirka 45 mínútur fyrir per kíló. Best er að nota kjarnhitamæli og þegar hann segir 70 gráður þá er kalkúnaskipið tilbúið.

Það er mjög mikilvægt að leyfa kjötinu að hvíla og ég sker ekki í það fyrr en eftir 20-30 mínútur.

Ljúffeng sósa

Hráefni:

  • 3 msk smjör
  • 300 g sveppir, smátt skornir
  • 500 ml kalkúnasoð (soðið vatn + kalkúnakraftur, magn eftir smekk)
  • 300 ml rjómi
  • Sósuþykkjari
  • Salt og pipar
  • Góð sulta

Aðferð:

1. Smjörsteikið sveppi og kryddið til með salti og pipar.

2. Hellið soðinu saman við og sjóðið niður, magnið af kraftinum fer eftir smekk. Gott að smakka sig til!

3. Bætið rjómanum saman við og notið sósuþykkjara ef þið viljið þykkja sósuna. Það er einnig eftir smekk.

4. Setjið smávegis af sultu til þess að fá smá sætu, ráð sem ég fékk frá tengdamömmu og ég hef alltaf gert síðan.

Sætkartöflumús með kornflexmulningi

Eva segist hafa kolfallið fyrir þessari dísætu og góðu sætkartöflumús þegar hún gerði innslag fyrir Ísland í dag fyrir nokkrum árum í tengslum við þakkargjörðarmáltíð, og hefur hún útbúið hana sjálf á hverju ári síðan. Hún segir músina vera fullkomna með kalkúninum og algjörlega ómissandi á veisluborðið.

Hráefni:

  • 5 stk sætar kartöflur
  • 100 g sykur
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  • ¼ tsk salt
  • 3 egg
  • 100 g smjör, brætt
  • 1 tsk vanilludropar
  • Kornflexmulningur (sjá uppskrift neðar)

Aðferð:

1. Stingið göt á kartöflunar með gaffli. Setjið í 180°c heitan ofn í um klukkustund eða þar til þær eru orðnar linar. Skerið í tvennt og skafið kjötið úr þeim.

2. Öllum hráefnum fyrir kartöflumúsina er hrært vel saman. Sett í eldfast mót og bakað í 20 mínútur og tekið út.

3. Gerið kornflexmulninginn og setjið yfir kartöflumúsina og látið aftur inní ofn í 20 mínútur.

Kornflex-karamella

Hráefni:

  • 3 msk smjör
  • 50 g púðursykur
  • 1 1/2 bolli kornflex, mulið

Aðferð:

1.Bræðið smjörið og setjið púðursykurinn saman við.

2. Bætið þá kornflexinu út í og hrærið vel.

Trufflu Mac & Cheese

Hráefni:

  • 500 g makkarónur
  • 3 msk smjör
  • 3 msk hveiti
  • 600 ml mjólk
  • 200 ml rjómi
  • 250 g cheddar, rifinn
  • 100 g parmesan
  • 1-2 tsk truffluolía, magn eftir smekk. Það má líka nota trufflumauk .
  • Salt og pipar

Aðferð:

1. Sjóðið makkarónur „al dente“.

2. Bræðið smjör, hrærið hveiti saman við og hellið mjólk+rjóma út í.

3. Bætið osti við og hrærið þar til bráðnað.

4. Kryddið og bætið truffluolíu út í.

5. Blandið saman við makkarónur og bakið í 180°C í 15 mín.

Rósakál með beikoni og hvítvíni

Hráefni:

  • 800 g rósakál, skorið í tvennt
  • 200 g beikon í bitum
  • 1 laukur
  • 100 ml hvítvín
  • 3 msk smjör
  • Salt og pipar

Aðferð:

1. Skerið rósakál í tvennt og sjóðið í söltu vatni þar til mjúkt í gegn. Hellið vökvanum frá og þerrið.

2. Steikið beikonið og laukinn þar til beikonið er stökkt og laukurinn mjúkur í gegn.

3. Bætið rósakálinu út á pönnuna og hellið hvítvíni út á, sjóðið niður.

4. Hellið rjómanum saman við og leyfið að malla í smá stund. Kryddið til með pipar.

Trönuberjasósa

Hráefni:

  • 300 g fersk eða frosin trönuber
  • 150 g sykur (ca. ¾ bolli)
  • 150 ml appelsínusafi (ca. ⅔ bolli)
  • Börkur af ½ appelsínu.
  • ½ tsk kanill
  • 1–2 msk vatn ef þarf

Aðferð:

1. Settu trönuber, sykur, appelsínusafa og appelsínubörk í pott.

2. Láttu malla við miðlungshita í 10–15 mín eða þar til berin springa og sósan þykknar.

3. Bættu við örlitlu vatni ef hún verður of þykk.

4. Leyfðu henni að kólna, hún þykknar enn meira þegar hún kólnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.