Skoðun

Frystum samninga. Stoppum at­kvæða­greiðslur. Ótíma­bundið frost

Pétur Björgvin Sveinsson skrifar

Þetta voru meðal þeirra óábyrgu orða sem ómuðu um þingsal daginn sem fréttir bárust um verndartolla á Ísland og Noreg.

Orð frá stjórnarandstöðu sem telur hagsmunum okkar best borgið þegar við erum lítil og óáreiðanleg í samskiptum við okkar helstu vina- og viðskiptaþjóðir.

Hvert ætlar stjórnarandstaðan að snúa sér?

Til Bandaríkjanna? Lands sem skellti á okkur 15% tollum án fyrirvara eða nokkurs samtals. Vilja þau snúa sér að Rússum? Eða er það Kína?

Þetta er gamaldags hræðsluáróður sem talar niður til íslensks samfélags sem er best þegar það er opið, djarft og framsækið.

Fá ríki, ef einhver, hafa hagnast jafn mikið og Ísland á því opna og frjálslynda kerfi sem reis úr rústum seinni heimsstyrjaldar. Það hefur tryggt okkur aðgengi að mörkuðum, tækifærum og samstarfi sem við hefðum annars aldrei haft.

Nú er svo komið að 70% af okkar útflutningi er til EES landa.

70%

Heimurinn er breyttur

Stórveldin mynda tollablokkir og við verðum að stíga ákveðið til jarðar og spyrja: Hvar ætlum við að staðsetja okkur í þessari nýju heimsmynd?

Að tala fyrir einangrun, tortryggni eða útilokun er skaðlegur málflutningur.

Slíkur málflutningur vinnur gegn hagsmunum Íslands, gegn atvinnulífi okkar, gegn öryggi okkar og gegn framtíðarmöguleikum okkar á alþjóðasviðinu.

Ég er stoltur Íslendingur, stoltur af samfélaginu sem við höfum byggt og stoltur af því að vilja gera það enn betra.

Við verndum ekki hagsmuni Íslands með því að gera það lítið, lokað og hrætt. Við verndum það með því að vera stórhuga,

taka pláss, vera virkir og traustir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu. Látum frjálslynda og sterka rödd Íslands heyrast hátt og skýrt.

Því aðeins þannig tryggjum við framtíð sem er verðug þeirrar þjóðar sem við viljum vera.

Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar. 




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×