Upp­gjörið: Fram - HC Kriens-Luzern 31-35 | Fram bíður enn eftir fyrsta stiginu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Framarar máttu þola fjögurra marka tap í kvöld.
Framarar máttu þola fjögurra marka tap í kvöld. Vísir/Anton Brink

Fram mátti þola fjögurra marka tap er liðið tók á móti Kriens-Luzern í fjórðu umferð Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld, 31-35.

Framarar byrjuðu af krafti og skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins. Gestirnir komust hins vegar fljótt í gang og skoruðu mikið af mörkum þar sem þeir keyrðu í bakið á Frömurum.

Gestirnir í Kriens-Luzern náðu nokkuð fljótt forystunni og leiddu mest með þremur mörkum í fyrri hálfleik.

Framarar snéru dæminu hins vegar við og náðu forystunni aftur um stund, áður en gestirnir komust aftur yfir og leiddu það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan 16-19 þegar flautað var til hlés og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var svo keimlíkur þeim fyrri. Gestirnir höfðu yfirhöndina fyrstu mínúturnar, en góður kafli Framara breytti stöðunni úr 21-25 í 26-25.

Eftir það náði Kriens-Luzern vopnum sínum þó á ný og tók forystuna á ný.

Framarar voru að elta það sem eftir lifði leiks og misstu gestina of langt fram úr sér á síðustu tíu mínútum leiksins.

Heimamenn í Fram náðu því aldrei að brúa bilið sem myndaðist og máttu því að lokum þola fjögurra marka tap, 31-35.

Kriens-Luzern er nú með sex stig í öðru sæti D-riðils, jafn mörg og Porto sem situr á toppnum. Fram er hins vegar enn án stiga á botni riðilsins.

Atvik leiksins

Áhlaup Framara þar sem liðið skoraði fimm mörk í röð og breytti stöðunni úr 21-25 í 26-25 gaf leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum liðsins heldur betur von. Rúnar Kárason skoraði til að mynda ótrúlegt mark til að jafna metin í 25-25 þar sem skot hans var varið upp í slá og þaðan skaust boltinn niður í fót Kevin Bonnefoi í markinu og inn.

Stjörnur og skúrkar

Að öðrum ólöstuðum var Luca Sigrist langbesti maður vallarins. Samkvæmt talningu Vísis endaði hann með 14 mörk úr 19 skotum, en tölfræðiskýrsla EHF segir að hann hafi skorað 15 mörk. Hvort sem er rétt var hann besti maður vallarins.

Í liði Fram var Viktor Sigurðsson öflugur í fyrri hálfleik og þeir Ívar Logi Styrmisson og Dánjal Ragnarsson tóku við sér í seinni hálfleik. Þá átti Breki Hrafn Árnason góða spretti í markinu.

Hins vegar náði Viktor ekki að fylgja góðum fyrri hálfleik eftir og ég efast ekkert um að Rúnar Kárason hefði verið til í að nýta skotin sín betur.

Dómararnir

Pólsku dómararnir komust vel frá sínu í kvöld. Litið um að þeir þyrftu að taka stórar ákvarðanir og í fá skipti sem áhorfendur þurftu að klóra sér í hausnum.

Stemning og umgjörð

Stemningin í Lambhagahöllinni var nokkuð góð og Framarar í stúkunni studdu sína menn vel, þrátt fyrir að ekki hafi verið þétt setið. Umgjörðin í Úlfarsárdalnum var einnig til fyrirmyndar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira