Upp­gjörið: Portúgal - Ís­land 100-70 | Heit kar­tafla í Portúgal

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sara Rut var stigahæst.
Sara Rut var stigahæst. Vísir/Hulda Margrét

Ísland tapaði með 30 stiga mun, 100-70, fyrir Portúgal í öðrum leik liðsins í undankeppni EM 2027 ytra. Eftir erfiðan annan leikhluta sá liðið aldrei til sólar.

Fyrstu þrjár mínútur leiksins eða svo voru virkilega góðar. Ísland komst 9-6 yfir þökk sé Söru Rún Hinriksdóttur sem leiddi sóknarleikinn.

Í kjölfarið skoraði Portúgal níu stig í röð og eftir það litu heimakonur aldrei um öxl. Munurinn var þó bara fimm stig eftir fyrsta leikhlutann, 19-14. Annar leikhluti byrjaði furðulega þar sem Ísland tapaði boltanum þrisvar í röð og alltaf refsaði Portúgal.

Allt fór niður hjá heimakonum á meðan boltinn var líkt og heit kartafla í höndum íslenska liðsins. Eftir 15 tapaða bolta í fyrri hálfleik og klikk í pressu Íslands sem veitti Portúgal ítrekað opin skot, var munurinn 29 stig í hálfleik, 55-26.

Sara Rut og Danielle að bera uppi sóknarleik liðsins á meðan aðrar skutu lítið á körfuna og biðu þess að þær tækju af skarið. Danielle fékk þrjár villur á fyrstu þremur mínútum þriðja leikhluta – með fjórar villur alls – og sat eftir það á bekknum í drykklanga stund vegna villuvandræða.

17 ára gömul Rebekka Rut Steingrímsdóttir sýndi kjark og þor. Sú keyrði ítrekað á körfuna og gerði það vel. 100 prósent skotnýting í þriðja leikhluta og skoraði 13 af 25 stigum Íslands í leikhlutanum en Portúgal skoraði einnig 25 stig og munurinn enn 29 stig fyrir síðasta leikhlutann.

Töpuðu boltarnir höfðu einnig strítt Íslandi í þriðja leikhluta og eftir 20 sekúndur í þeim fjórða voru þeir tveir tapaðir. Boltinn var áfram sem heit karfafla og alls tapaði Ísland 27 boltum í leiknum. Það er bersýnilega ekki líklegt til árangurs.

Leiknum lauk með 30 stiga tapi, 100-70 fyrir Portúgal. Sara Rut Hinriksdóttir var stigahæst í liðinu með 22 stig en Rebekka Rut bjarti bletturinn með 16 stig og 100 prósent nýtingu utan af velli.

Næsti gluggi er í mars þar sem Ísland heldur til Serbíu áður en það mætir Portúgal hér heima.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira