Upp­gjör: Kefla­vík - Haukar 94-84 | Kefl­víkingar tóku Íslandsmeistarana

Andri Már Eggertsson skrifar
Keflavík - Grindavík Bónus Deild Kvenna Vetur 2025
Keflavík - Grindavík Bónus Deild Kvenna Vetur 2025

Keflavík vann Hauka í stórleik 4. umferð Bónus deildar kvenna. Heimakonur settu tóninn í fyrsta leikhluta og voru með forystuna allan leikinn þrátt fyrir áhlaup Hauka. Keflavík vann að lokum 94-84. 

Keflvíkingar mættu í dúndur gír strax á fyrst sekúndu. Heimakonur komust snemma tíu stigum yfir 12-2 sem varð til þess að Emil Barja, þjálfari Hauka, tók leikhlé. Haukar voru að misnota mikið af skotum nálægt hringnum og Keflvíkingar fengu mikið af opnum skotum.

Leikhlé Emils breytti litlu sem engu og fyrstu stig Hauka úr opnum leik komu eftir tæplega fimm mínútur. Keflavík komst mest tuttugu stigum yfir en staðan eftir fyrsta fjórðung var 29-11.

Haukar voru ekki á því að kasta inn handklæðinu heldur svöruðu gestirnir fyrir sig. Varnarleikur liðsins hrökk í gang sem þvingaði Keflvíkinga í tapaða bolta sem skilaði sér í auðveldum körfum. Eins og Haukar í fyrsta leikhluta þá gerðu Keflvíkingar aðeins eina körfu úr opnum leik á fimm mínútum. Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé í stöðunni 33-23.

Haukar enduðu fyrri hálfleik á að gera síðustu sex stigin og Keflvíkingar voru tíu stigum yfir í hálfleik 43-33.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta þar sem bæði lið tóku stutt áhlaup. Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Keflavíkur, endaði á að gera síðustu þrjú stigin í þriðja leikhluta og Keflavík var tólf stigum yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta.

Haukar náðu að minnka forskot Keflavíkur minnst niður í fimm stig þegar mínúta var eftir en þá steig Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Keflavíkur, upp og setti niður þriggja stiga skot sem kláraði leikinn. Niðurstaðan tíu stiga sigur Keflavíkur 94-84.

Atvik leiksins

Undir lokin klikkaði Rósa Björk Pétursdóttir á sniðskoti þar sem hún hefði geta minnkað forskot Keflavíkur niður í þrjú stig en Sara Rún Hinriksdóttir svaraði með þriggja stiga körfu í næstu sókn og kláraði leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Sara Rún Hinriksdóttir hefur farið á kostum í liði Keflavíkur. Sara var stigahæst í kvöld með 28 stig en hún tók einnig 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Amandine Justine Toi, leikmaður Hauka, náði sér ekki á strik í kvöld. Hún tók 17 skot í opnum leik og setti aðeins tvö ofan í.

Dómararnir

Dómarar kvöldsins voru Sigmundur Már Herbertsson, Sigurbaldur Frímannsson og Ingi Björn Jónsson. Dómararnir voru flottir í kvöld og það vakti mikla lukku þegar Sigmundur Már sló á létta strengi undir lok leiks í innkasti Hauka. 

Stemming og umgjörð

Það var góð stemning í Blue-höllinni í kvöld og mætingin var góð. Umgjörðin er alltaf til fyrirmyndar í Keflavík. 

„Sýndi samheldnina í hópnum að hafa haldið áfram sama hvað gekk á“

Hörður Axel Vilhjálmsson var ánægður með sigur kvöldsinsAnton Brink/Vísir

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður eftir tíu stiga sigur gegn Haukum.

„Við byrjuðum vel. Við vorum grimmar og mættum tilbúnar til leiks og það hjálpaði líka hvað við hittum vel til að byrja með,“ sagði Hörður Axel eftir leik.

Þrátt fyrir að hafa komist tuttugu stigum yfir í fyrsta leikhluta var munurinn aðeins tíu stig í hálfleik og Hörður vissi að Haukar myndu koma til baka.

„Þær eru með gott lið og þær voru ekki að fara leggjast niður og láta valta yfir sig. Það sem ég er ánægðastur með í leiknum var hvernig við svöruðum áhlaupum Hauka.“

Haukar komu til baka þrátt fyrir að hafa lent undir og Hörður var afar ánægður með hvernig hans lið svaraði því.

„Það sýndi samheldnina í hópnum að hafa haldið áfram sama hvað gekk á. Það steig alltaf næsta stelpa upp og það er það sem við viljum standa fyrir.“

Keishana Washington spilaði sinn fyrsta leik fyrir Keflavík og Hörður var ánægður með hennar framlag.

„Hún bætti liðið okkar og það er það sem hún á að gera. Hún getur byggt ofan á þetta,“ sagði Hörður Axel að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira