Skoðun

Mál­gögn og gervi­greind

Steinþór Steingrímsson, Einar Freyr Sigurðsson og Helga Hilmisdóttir skrifa

Texti og önnur gögn sem geyma upplýsingar um tungumálið eru lykillinn að þróun gervigreindarforrita á borð við ChatGPT, Claude og Gemini. Forritin byggja á mállíkönum sem eru mótuð með greiningu á textagögnum með það markmið að geta líkt eftir tungumálinu og myndað þannig læsilegan texta á öllum þeim málum sem það hefur „séð“ nógu mikið af.

Langstærstur hluti þeirra texta sem líkönunum eru sýndir er á ensku. Flest stærstu mállíkönin eru þó fjöltyngd að því leyti að þau geta myndað texta á mörgum tungumálum. Bestu niðurstöðurnar sem fást úr líkönunum eru á málum sem mjög margir tala en tungumál sem færri tala standa ekki eins vel að vígi.

Á alþjóðlegum fundi stjórnmálaleiðtoga, fræðimanna og fulltrúa tæknifyrirtækja um gervigreind í febrúar fyrr á þessu ári kom það fram að bæta þyrfti samkeppnisstöðu Evrópu. Meðal annars var rætt um mikilvægi þess að hlúa að þeim fjölmörgu tungumálum sem töluð eru í álfunni. Lykilatriði er að afla nægilegra gagna og vinna úr þeim svo að þau geti nýst til að búa til gervigreindarlíkön sem geta unnið með öll þessi tungumál. Liður í því er verkefnið European Language Data Space sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett á laggirnar. Þar geta eigendur gagna og rétthafar samið um notkun við þá sem vilja nýta þau.

Árnastofnun hefur verið leiðandi í því að búa til og safna málgögnum á íslensku með það að markmiði að tryggja stöðu íslensku í tækniheiminum. Fimmtudaginn 9. október stendur Árnastofnun fyrir málþingi í samvinnu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um European Language Data Space-verkefnið. Á málþinginu, Hagnýting málgagna með Language Data Space, tala íslenskir og erlendir sérfræðingar um markmiðið með verkefninu, markað fyrir málgögn og mikilvægi þeirra. Þá verða pallborðsumræður um málgögn, máltækni og gervigreind fyrir íslensku, og hvort og þá hvernig hægt sé að ná sátt um nýtingu textagagna við þróun gervigreindarlíkana.

Málþingið er opið öllum áhugasömum og upplýsingar um skráningu má finna á vef Árnastofnunar, arnastofnun.is.

Höfundar eru fræðimenn við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.




Skoðun

Sjá meira


×