Upp­gjörið: Valur - Tinda­stóll 85-87 | Basile með sigurkörfu

Kári Mímisson skrifar
Dedrick Basile tryggði Tindastóli sigur á Val.
Dedrick Basile tryggði Tindastóli sigur á Val. vísir/diego

Valur og Tindastóll mættust í lokaleik 1. umferðar Bónus-deildarinnar. Leikið var á Hlíðarenda en ferðalag Sauðkræklinga var heldur lengra í þetta sinn en liðið sat fast í München í tvo daga eftir að hafa sigrað slóvakíska stórliðið Slovan Bratislava í Norður-Evrópudeildinni í körfubolta. 

Liðið ákvað því við heimkomu að halda ekki norður heldur gista og æfa í Grindavík fyrir leik kvöldsins. Úrslitin réðust undir blá lokin þar sem Dedrick Basile skoraði sigurkörfuna og tryggði Tindastóli sigurinn. Lokatölur 85-87 fyrir Tindastól.

Leikurinn fór vel af stað en jafnræði var með liðunum framan af leiknum. Í stöðunni 17-17 tóku hins vegar gestirnir frá Sauðárkróki yfir leikinn en á skömmum tíma tókst þeim að ná 17 stiga forystu þegar liðið komst í 21-38. 

Valsmenn náðu þó að svara ágætlega fyrir sig áður en flautað var til hálfleiks en munurinn var 10 stigu þegar liðin héldu til búningsherbergja, staðan 41-51 fyrir gestina úr Skagafirði. Það var ákveðinn haustbragur yfir þessum fyrri hálfleik ef svo má að orði komast. Kári Jónsson og Kristófer Acox voru í stökustu vandræðum og maður hafði það stundum á tilfinningunni að þetta væri þeirra fyrsti leikur saman.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn afar vel og tókst að herða vörn sína til mikilla muna og á sama tíma fóru skotin að ganga betur. Hægt og býtandi tókst liðinu að vinna sig inn í leikinn og undir lok þriðja leikhluta tókst liðinu að minnka muninn niður í eitt stig en munurinn var þrjú stig fyrir loka leikhlutann, 61-64.

Sigtryggur Arnar Björnsson byrjaði loka leikhlutann með því að setja niður tvo glæsilega þrista og auka forystu gestanna úr Skagafirði í níu stig en ólseigir Valsarar börðust áfram og tókst að halda í við Tindastól. Þegar rúmlega mínúta var eftir af leiknum var munurinn sex stig en heimamenn jöfnuðu í tvígang á lokamínútunni sem var vægast sagt æsispennandi. 

Þegar rúmlega sex sekúndur voru eftir fór Callum Lawson setti niður skot sem hefur sennilega átt að vera þriggja stiga en hann steig fyrir algjöran klaufaskap á línuna og staðan því 85-85 og Tindastóll með boltann. Það kom í hlutskipti Dedrick Basile sem var sjóðheitur í fjórða leikhluta að finna þessa margumtöluðu sigurkörfu og í þetta sinn tókst það. Lokatölur á Hlíðarenda 85-87 eftir afar spennandi leiki.

Atvik leiksins

Þessi karfa undir lokin verður að vera atvik leiksins. Með rúmlega sex sekúndur eftir af klukkunni þá tókst Basile að búa sér til pláss, ráðast að körfunni og tryggja Stólunum sigur í fyrsta leik deildarinnar.

Stjörnur og skúrkar

Dedrick Basile var eins og áður segir stórkostlegur fyrir Tindastól en hann skoraði 19 stig í kvöld og þar af 15 stig í fjórða leikhluta. Ásamt því var hann með 11 stoðsendingar. Ivan Gavrilovic kom sterkur inn í lið Stólanna í kvöld og þá sérstaklega í fyrri hálfleik en hann gerði 17 stig. 

Kristófer Acox átti ekki sinn besta dag í dag en hann skoraði aðeins eitt stig í kvöld og klúðraði fimm vítaskotum. Vítanýting Vals í dag var annars afar góð því fyrir utan þessi víti sem Kristó klúðraði þá fór aðeins eitt víti forgörðum hjá liðinu í kvöld. Frank Aron Booker var stigahæstur í liði Vals en hann skoraði 24 stig og reif niður níu fráköst.

Dómarinn

Þeir voru í bleiku í dag sem er ekki boðlegt í mínum huga. Annað en það þá voru vissulega einhver atvik hér og þar sem menn voru ósáttir við en þetta var alls ekki auðveldur leikur að dæma.

Stemning og umgjörð

Þetta var vissulega undarlegur leikur enda átti hann að vera um helgina en gekk ekki þar sem lið Tindastóls festis í München vega drónaumferðar. Valur mætti Stjörnunni á sama tíma í Bestu deild kvenna svo það var nóg um að vera á þessu mánudagskvöldi hér á Hlíðarenda.

Viðtöl

„Ótrúlega fúlt að tapa svona leik“

Finnur Freyr Stefánsson var ekki sáttur með varnarleik sinna manna í kvöld.vísir/diego

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, segist eðlilega vera svekktur með grátlegt tap liðsins í kvöld.

„Þetta er auðvitað fúlt. Ég er ósáttur við lélegan fyrri hálfleik en á sama tíma sáttur við það hvernig við komum til baka í seinni hálfleiknum. Ótrúlega fúlt að tapa svona leik sem hefði getað fallið öðru hvoru megin hér í kvöld,“ sagði Finnur eftir þetta svekkjandi tap í kvöld.

Eftir erfiðan fyrri hálfleik þá tókst Val að koma sér aftur inn í leikinn í seinni hálfleik og jafn á loka mínútunni. Það dugði því miður skammt og segir Finnur að liðið hefði átt að verjast betur undir lokin.

„Varnarlega vorum við mjög slakir og við vorum að gera marga hluti vitlausa. Það einkennir oft þennan árstíma en við komum til baka en Basile reyndist okkur erfiður. Hann á þrist á mikilvægum tímapunkti og svo setur hann þessa körfu hér undir lokin. Ég er ósáttur að við höfum ekki náð að gera betur þar og ekki gefið honum þetta sniðskot til að vinna leikinn. Mér fannst við eiga að geta gert betur í þessari lokasókn. Það var lítill tími eftir og þetta var frekar auðvelt skot svo ég hefði viljað hafa tvo að dekka hann þarna og skilja einhvern annan eftir sem var lítill.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira