Körfubolti

Loyd kreisti fram sigur fyrir Pól­land

Siggeir Ævarsson skrifar
Jordan Loyd skoraði 27 stig fyrir Pólland í kvöld og skoraði sigurkörfuna
Jordan Loyd skoraði 27 stig fyrir Pólland í kvöld og skoraði sigurkörfuna Mynd FIBA

Pólland og Ísrael mættust í síðasta leik dagsins í D-riðli á Evrópumótinu í körfubolta en Ísland mætir Póllandi á morgun. Pólverjar voru nálægt því að kasta leiknum frá sér en Jordan Loyd var á öðru máli.

Pólverjar voru 14 stigum yfir í upphafi 3. leikhluta, 40-26, en töpuðu leikhlutanum svo með 14 stigum og Ísraelar virtust hreinlega ætla að snúa leiknum sér í hag en þá tók hinn bandaríski Jordan Loyd til sinna ráða.

Loyd skoraði sjö síðustu stig Póllands í leiknum. Kom þeim yfir með þristi 62-61, jafnaði leikinn í 64-64 og skoraði svo sigurkörfuna þegar hann tók sitt eigið frákast og blakaði boltanum spjaldið ofan í. Lokatölur 66-64.

Alls fóru níu leikir fram í dag á Evrópumótinu. Slóvenar leita enn að sínum fyrsta sigri á mótinu þrátt fyrir hetjulega frammistöðu Luka Doncic sem skoraði 39 stig í dag þegar liðið tapaði gegn Frakklandi.

Nikola Jokic skoraði einnig 39 stig en hann leiddi Serbíu til sigurs gegn Lettlandi 84-80. Jokic bætti við tíu fráköstum en Davis Bertans og Kristaps Porzingis skoruðu 16 og 14 stig fyrir Lettland.

Þá vann Tyrkland algjöran yfirburðasigur á Portúgal, 95-54. Alperen Sengun, leikmaður Houston Rockets, fór fyrir liða Tyrkja með 20 stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar.

Frændur okkar Finnar eru með fullt hús stiga í B-riðli eftir þrjá leiki en Lauri Markkanen lét stigunum rigna gegn Svartfjallalandi þar sem hann skoraði 23 stig og tók þrettán fráköst í öruggum 85-65 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×