Skoðun

Að hlúa að for­eldrum: For­vörn sem skiptir máli

Áróra Huld Bjarnadóttir skrifar

Flest okkar eru sammála um að við viljum börnunum okkar allt það besta, að þeim líði vel og vegni vel í lífinu. Við viljum veita þeim gott uppeldi, öruggt umhverfi og tækifæri til að blómstra. Við höfum áhyggjur af vanlíðan, erfiðri hegðun, auknu ofbeldi meðal ungmenna og félagslegri einangrun. Við viljum grípa inn í, bregðast við, bjóða úrræði og stuðning. En við megum ekki gleyma því sem leggur grunn að farsæld barna, foreldrum þeirra.

Foreldrahlutverkið getur verið eitt mest krefjandi verkefni sem tekist er á við í lífinu en líklegast er ekkert hlutverk jafn ábyrgðarmikið, margslungið og vanmetið og foreldrahlutverkið. Ekkert foreldri kemur inn í hlutverkið með fullmótaða þekkingu, reynslu og verkfæri. Aðstæður foreldra eru mismunandi, áskoranir ólíkar og bakland sumra takmarkað. Því er brýnt að við sem samfélag styðjum betur við foreldra.

Foreldrafræðsla og stuðningur við foreldra ætti ekki að vera bundinn við þá sem eiga erfitt heldur í boði fyrir alla. Góður ásetningur nægir ekki alltaf þegar þreyta, vanlíðan eða óöryggi sækir að. Þá skiptir máli að fá rými til að ígrunda, fá stuðning og eflast í hlutverkinu.

Það þarf að vera eðlilegt og jákvætt að fá stuðning sem foreldri. Það þarf að vera framboð á úrræðum sem eru fagleg, hlý og valdeflandi. Stuðningur sem byggir ekki á því að gefa fólki tilbúnar formúlur eða töfralausnir. Það er auðvelt að lenda í þeirri gildru að bera okkur saman við eitthvað sem við sjáum ítrekað á samfélagsmiðlum. Glansmyndir af fullkomnu uppeldi og fjölskyldum. Því er mikilvægt að við getum átt heiðarleg samtöl og fundið styrk í að vera við sjálf.

Það er mikilvægt að foreldrafræðsla og stuðningur við foreldra verði forgangsraðað. Ekki af því að foreldrar séu að bregðast, heldur af því að þeir skipta máli. Það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar er að styðja þá sem ala þau upp. Það er þar sem forvörn hefst.

Höfundur er foreldra- og uppeldisfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×