Skoðun

Væri ekki hlaupið út aftur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Draga má þá ályktun af viðræðum brezkra stjórnvalda við Evrópusambandsins um útgöngu Bretlands úr því að erfitt yrði fyrir fámennt ríki eins og Ísland að endurheimta fullveldi sitt kæmi til inngöngu landsins í sambandið ef íslenzku þjóðinni myndi snúast hugur síðar meir. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í drögum að skýrslu um Ísland og Evrópusambandið sem Gunnar Pálsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Brussel, setti saman árið 2018.

Drögunum, sem ekki voru gefin út, var nýverið komið til Ríkisútvarpins að því er virðist í því skyni að reyna að koma höggi á Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, en í þeim segir einnig að umsókn Samfylkingarinnar og VG um inngöngu í Evrópusambandið 2009 hafi ekki verið dregin formlega til baka. Fleira er hins vegar að finna þar og hefði því líklega verið rétt að skoða þau betur áður en þau voru afhent.

Fram kemur til dæmis í drögunum að útganga Bretlands hafi verið bakslag fyrir Evrópusambandið og að framganga þess í viðræðunum við Breta virtist einkum hafa haft það markmið að hindra að fleiri ríki yfirgæfu sambandið. „Af útgönguviðræðum Bretlands og ESB má ennfremur draga þá ályktun að ekki yrði áhlaupaverk fyrir fámenna þjóða að endurheimta það fullveldi sem framselt yrði með aðild að sambandinu, skyldi henni snúast hugur síðar meir.“

Vert er að geta þess að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, talaði á hliðstæðum nótum í viðtali við hlaðvarpið Chess After Dark 27. ágúst síðastliðinn eða fyrir einungis tæpu ári síðan. Það er áður en hún varð forsætisráðherra. „Ég veit bara að það er rosalega mikil vegferð að fara í það ferli og það er líka vegferð sem þarf að vera mikil samstaða um hjá þjóðinni. Eins og dæmin hafa sýnt, þú gengur ekki svo auðveldlega út úr Evrópusambandinu.“

Hafa má í huga í þessum efnum að talið er að Bretland hefði mögulega ekki sagt skilið við Evrópusambandið hefðu Bretar verið búnir að taka evruna upp í stað pundsins. Ekki fyrir þær sakir að evran væri svo eftirsóknarverð heldur vegna þess að meira er en að segja það að setja á laggirnar nýjan sjálfstæðan gjaldmiðil og skapa honum nauðsynlegan trúverðugleika. Jafnvel fyrir stórt hagkerfi eins og Bretland. Upptaka evrunnar er skylda fyrir ný ríki sambandsins.

Mikilvægt er fyrir vikið að hafa það hugfast þegar rætt er um Evrópusambandið að ekki er hlaupið þaðan út þegar inn er komið. Ekki aðeins að mati þeirra sem hugnast slík innganga ekki heldur einnig embættismanna utanríkisráðuneytisins og núverandi forsætisráðherra, allavega fyrir kosningar, auk þess sem reynsla Breta er til marks um það. Með inngöngu í sambandið væri verið að taka ákvörðun sem ekki yrði svo auðveldlega tekin til baka. Ef yfir höfuð.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×