Ein af grundvallarreglum EES-samningsins er réttur ríkisborgara EES-ríkja til frjálsrar farar og dvalar í öðru EES-ríki. Það eru þó ekki allir sem átta sig á því að ríkisborgarar frá landi utan EES („ríkisborgarar þriðja ríkis“) geta einnig fallið undir gildissvið EES-samningsins og átt rétt til frjálsrar farar og dvalar í öðru EES-ríki. Á þetta við þegar viðkomandi ríkisborgari þriðja ríkis er fjölskyldumeðlimur EES-borgara, svo sem maki eða barn. Helgast þetta af því að Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstóllinn hafa talið að réttur EES-borgara til frjálsrar farar geti ekki verið fyllilega virkur nema fjölskyldumeðlimir þeirra geti fylgt þeim þegar þeir dvelja í öðru EES-ríki. Án þessa afleidda réttar fyrir fjölskyldumeðlimi væri þannig um að ræða hindrun á frjálsri för fólks milli EES-ríkja.
Rétturinn til að snúa aftur til Íslands með fjölskyldumeðlimi
Þannig geta ríkisborgarar þriðja ríkis átt rétt til að flytja hingað til lands sem fjölskyldumeðlimir EES-borgara. Þetta gildir einnig um fjölskyldumeðlimi íslenskra ríkisborgara, en þó aðeins í þeim tilvikum þar sem íslenskir ríkisborgarar snúa aftur til landsins eftir að hafa nýtt sér réttinn til frjálsrar farar og dvalið í öðru EES-ríki. Forsendan er að hinn íslenski ríkisborgari hafi flutt til annars EES-ríkis og átt þar raunverulega búsetu ásamt fjölskyldmeðlimnum í þrjá mánuði sem uppfylli tiltekin skilyrði. Við þessar aðstæður gildir sú regla að ríkisborgari þriðja ríkis, sem er fjölskyldumeðlimur íslensks ríkisborgara, á afleiddan rétt til að koma hingað til lands með hinum íslenska ríkisborgara. Í þessu felst ekki einungis réttur til að dvelja hér á landi, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, heldur einnig réttur til að stunda hér atvinnu, án sérstaks atvinnuleyfis. Þennan rétt má ekki takmarka nema skilyrðum EES-samningsins séu fullnægt, m.a. ef hætta stafar af viðkomandi einstaklingi eða ef um er að ræða misnotkun á réttindum eða sviksamlega háttsemi.
Nýlegt mál í Noregi
Nýlegt mál sem tekist var á um fyrir norskum dómstólum sýnir glöggt að ekki er alltaf einfalt að átta sig á því hvenær mál fellur undir gildissvið EES-samningsins. Atvik málsins voru þau að íranskur ríkisborgari hafði áður komið til Noregs sem umsækjandi um alþjóðlega vernd en fengið synjun og verið vísað úr landi, með ótímabundnu endurkomubanni. Í kjölfarið fékk hann hins vegar dvalarleyfi sem flóttamaður í Grikklandi og fluttist þaðan til Svíþjóðar þar sem hann kynntist norskri konu, sem hann giftist og eignaðist barn með. Í maí 2022 var maðurinn handtekinn í Noregi og í kjölfarið ákærður fyrir að hafa komið til Noregs í trássi við brottvísun og endurkomubann. Hvorki héraðsdómur né áfrýjunardómstóll í Noregi leystu úr málinu á grundvelli EES-réttar, heldur dæmdu manninn í eins árs fangelsi fyrir brot á norsku útlendingalögunum.
Í því norska máli sem hér hefur verið rakið var upphaflega um að ræða mál sem einungis féll undir norsk lög en um leið og viðkomandi ríkisborgari þriðja ríkis hafði gifst norskri konu og dvalið með henni í Svíþjóð, féll hann undir gildissvið EES-samningsins og átti því afleiddan rétt til að fylgja eiginkonu sinni til Noregs.
Málinu var skotið til Hæstaréttar Noregs sem óskaði eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum. Í máli E-6/23 MH komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að eftir að hafa gifst norskri eiginkonu sinni og dvalið með henni í Svíþjóð félli maðurinn undir gildissvið EES-samninginn. Í því fælist réttur mannsins til að koma til Noregs ásamt eiginkonu sinni þrátt fyrir að hann hefði áður sætt endurkomubanni á grundvelli norskra laga. Norskum yfirvöldum hefði því ekki verið heimilt að refsa manninum með þessum hætti fyrir brot gegn fyrra endurkomubanni, heldur hefði þeim borið að meta að nýju hvort heimilt væri að takmarka réttindi hans á grundvelli EES-samningsins. Hæstiréttur Noregs komst að sömu niðurstöðu og EFTA-dómstóllinn og ógilti dóm áfrýjunardómstólsins þar sem þetta mat hafði ekki farið fram.
Mikilvægt að íslensk stjórnvöld og dómstólar séu meðvituð um gildissvið EES-samningsins
Samkvæmt þessu er ljóst að jafnvel landsdómstólar í EES-ríki átta sig ekki alltaf á því þegar mál falla undir gildissvið EES-samningsins. Í því norska máli sem hér hefur verið rakið var upphaflega um að ræða mál sem einungis féll undir norsk lög en um leið og viðkomandi ríkisborgari þriðja ríkis hafði gifst norskri konu og dvalið með henni í Svíþjóð, féll hann undir gildissvið EES-samningsins og átti því afleiddan rétt til að fylgja eiginkonu sinni til Noregs. Það er því mikilvægt að íslensk stjórnvöld sem fara með málefni útlendinga og íslenskir dómstólar séu meðvituð um það að við slíkar aðstæður kemur EES-samningurinn til skoðunar með öllum þeim réttindum sem honum fylgja.
Höfundur er lögmaður hjá ADVEL lögmönnum og kennari í Evrópurétti við lagadeild Háskólans í Reykjavík.