Clark vann hvorki titil í WNBA deildinni eða háskólaboltanum né tók þátt í Ólympíuleikunum í París en hún fékk engu að síður þessa útnefningu.
Það leikur enginn vafi á því að þessi 22 ára körfuboltakona kom kvennakörfunni á kortið á síðustu árum og er í hópi vinsælustu íþróttamanna Bandaríkjanna í dag.
Hún varð á árinu stigahæsti leikmaður sögunnar í bandaríska háskólaboltanum og skiptir þar engu hvort um er að ræða karla eða konur. Hún tók fyrst kvennametið en sló svo met Pete Maravich.
Það horfðu næstum því nítján milljónir á úrslitaleikinn í háskólaboltanum þar sem Clark varð reyndar að sætta sig við tap með liðsfélögum sínum í Iowa.
Clark var valin nýliði ársins í WNBA deildinni en leikir hennar slógu hvert áhorfsmetið á fætur öðru, bæði í sjónvarpi sem og í íþróttahúsunum sjálfum. WNBA liðin spiluðu vanalega í litlum höllum en þurftu að færa leiki Clark í mun stærri hallir til að bregðast við gríðarlegri eftirspurn eftir miðum.
Hún setti líka mörg nýliðamet en Clark var með 19,2 stig og 8,4 stoðsendingar að meðaltali í WNBA. Hún varð fyrsti nýliðinn í sögunni til að ná þrennu og því náði hún tvisvar sinnum. Hún setti líka stoðsendingamet á einu tímabili, ekki bara hjá nýliðum heldur hjá öllum leikmönnum og bæði á öllu tímabilinu sem og í einum leik (19).
„Mér hefur tekist að vekja áhuga hjá svo mörgu fólki sem hefur aldrei horft á kvennaíþróttir hvað þá kvennakörfubolta og með því breytt þeim í áhugafólk um sportið,“ sagði Caitlin Clark við Time.
„Ég vil vera einhver sem ungar stúlkur geta litið upp til. Þetta er samt bara byrjunin,“ sagði Clark.
- Íþróttamenn ársins hjá Time:
- 2020: LeBron James, körfubolti
- 2021: Simone Biles, fimleikar
- 2022: Aaron Judge, hafnabolti
- 2023: Leo Messi, fótbolti
- 2024: Caitlin Clark, körfubolti