Skoðun

Að­ventan – njóta eða þjóta?

Hrund Þrándardóttir skrifar

Aðventan er á næsta leyti og þá Á að njóta. Njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum, borða góðan mat, hlusta á jólatónlist, kaupa frábærar jólagjafir, skreyta, kíkja á jólatónleika, baka, græja jólaleynivinagjafir í vinnunni, fara á happy, kaupa jólamatinn, kíkja á jólastemninguna í bænum, þrífa, mæta á jólahlaðborð, horfa á góða jólamynd, mæta í jólapeysu í vinnuna, mæta í jólabröns...

Já og svo eru það börnin...

...fara á jólasýningu leikskólans, mæta á jólafimleikasýninguna, muna rauða daginn hjá krökkunum, aðstoða við jólaprófalestur, muna jólapeysudaginn, græja gjöf fyrir jólaleynivinaleik, mæta á helgileik, fara á skauta, skutla á jólaball, sækja á jólaball, mæta á jólaföndur skólans, mæta í jólabingó skólans, gera piparkökuhús, græja sparifatadag, skutla á aukaæfingar út af jólasýningum, minna jólasveinana á 13 glaðninga í skóinn, græja 24 frábærar hugmyndir fyrir álfinn, útbúa dagatal með 24 samveruhugmyndum...

Ef þú nærð í alvöru að njóta og gera mun meira en í venjulegum mánuði, hefur efni á því og vilt forgangsraða því þá auðvitað gerir þú það. Bara halda áfram að njóta.

Ef þú nærð ekki að njóta - staldraðu við. Reyndu að velja það sem skiptir þig og þína fjölskyldu máli. Hvernig vilt þú hafa aðventuna þína? Eru gamlar hefðir í alvöru ómissandi? Hverju má sleppa? Má færa eitthvað fram janúar? Er hægt að taka samtöl við foreldrafélög skóla, skóla og tómstundir barnanna um hvernig er hægt að einfalda? Gæti rauði dagurinn í skólanum t.d. verið þannig að við notum bara rauðan lit, borðum rauðan mat, syngjum lög með rauðum í, finnum rauða litinn í umhverfinu í stað þess að klæðast rauðri flík?

Og að lokum: passaðu þig á glansmyndum samfélagsmiðlanna. Þó þar birtist ótal fallegar myndir af heimatilbúnum aðventukrönsum og piparkökuhúsum og allir í kósí þá eru í alvöru ekki öll önnur en þú með „allt á hreinu“ þau setja bara ekki inn myndir af því.

Gleðilega aðventu!

Höfundur er sálfræðingur á Sálstofunni.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×