Skoðun

Tími til að endur­vekja frelsið

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Það er kominn tími til að setja vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki í fyrsta sæti á Íslandi. Gömlu flokkarnir á Íslandi hafa lengi státað af því að frelsi sé leiðarljós þeirra en veruleikinn er annar. Frelsi hefur nefnilega smám saman verið fjarlægt úr stefnumörkun þeirra og misst gildi sitt. Það er kominn tími til að breyta þessu.

Frelsi fólks krefst traustra stoða

Vanræksla innviða er atlaga að frelsi fólks. Við sam­ein­ingu stóru sjúkra­hús­anna í Reykja­vík um alda­mót­in voru legurými 1.260 en eru nú 650. Á sama tíma hefur íbúum hefur fjölgað um rúmlega 100 þúsund. Öryggi fólks er ógnað vegna þess að löggæsla á landinu öllu hefur ekki eflst í samræmi við vaxandi fólksfjölda og auknar þarfir. Samgöngur hafa verið vanræktar um land allt.

Þegar grunnstoðir samfélagsins eru veikar skerðir það frelsi fólks og fyrirtækja til að njóta öryggis, þjónustu og lífsgæða. Viðreisn mun forgangsraða skattfé til uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum og auka fjárfestingarstig – því frelsi krefst traustra stoða.

Frelsi til að skapa, keppa og vaxa

Smærri fyrirtæki glíma við flókið og þungt regluverk og ójafnt aðgengi að mörkuðum. Þetta dregur úr samkeppni, kæfir nýsköpun og takmarkar fjölbreytni í atvinnulífinu. Samkeppni hefur verið veikt og nú síðast amþykkti ríkisstjórnin ólög um fákeppni og gerði þannig litlum og meðalstórum fyrirtækjum erfiðara fyrir að vaxa. Neytendur töpuðu. Viðreisn vill jafna leikreglur með því að efla samkeppni, jafna aðgengi að mörkuðum og tryggja sanngjarnari skilyrði til að vaxa. Með öflugri samkeppni og fjölbreyttara atvinnulífi skapast frelsi til að skapa aukin verðmæti og framleiðni og kaupmáttur vex.

Fyrir frelsið, framtíðina og tækifærin

Við sköpum tækifæri með því að fara betur með fé, einfalda kerfin okkar og gera lausnirnar sveigjanlegri. Við eigum að draga úr óþarfa skrifræði og aldrei missa sjónar af meginmarkmiðinu; að bæta þjónustu við fólkið í landinu og lífsgæði þess. Verðmætt fé fólks og fyrirtækja á að fara í uppbyggingu innviða og þjónustu en ekki í þunglamalegt kerfi.

Frelsi er ekki bara slagorð í kosningabaráttu – frelsið er framtíðarsýn byggð á almannahagsmunum.

Viðreisn vill tryggja raunverulegt frelsi fyrir fólk og fyrirtæki, með skýrri forgangsröðun, einfaldara kerfi og sterkari innviðum. Með því að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og umgangast sameiginlega sjóði með forgangsröðun, jafnvægi og ábyrgð að leiðarljósi getum við saman byggt samfélag þar sem frelsi og tækifæri fá að blómstra.

Næstu ríkisstjórnar bíður að skapa ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki. Viðreisn er tilbúin til þess.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×