Skoðun

ADHD, fjórir stafir og hvað svo?

Jóna Kristín Gunnarsdóttir skrifar

Það getur skipt öllu máli að leita sér þekkingar til að geta stutt við barn með ADHD. ADHD er ekki klippt og skorið og það getur svo sannarlega verið áskorun að eiga barn með ADHD. Setja skýr mörk en samt vera sveigjanlegur, geta sett sig í spor þeirra en á sama tíma gefið skýrt til kynna að það sért þú sem ræður.

Mikilvægasta hlutverkið og jafnframt oft það erfiðasta sem foreldrar hafa er að styðja við og passa upp á sjálfsmynd barnsins að það læri á sjálft sig og kunni að byggja á styrkleikum sínum og vinna með veikleika sína. Ekkert barn hefur enga styrkleika en ef sjálfsmyndin er brotin er oft erfitt að setja fókusinn á styrkleika sína og meiri líkur á að barnið sýni óæskilega hegðun.

Skilningur skiptir öllu og þá sérstaklega skilningur barnins á hvað það þýðir að vera með ADHD. Foreldrar, kennarar og aðrir sem móta umhverfi barnsins þurfa því að þekkja og skilja ADHD vel til þess að geta stutt við og frætt barnið. Þegar við höfum skilning á hlutunum eykst umburðarlyndi og vilji til að þjálfa færni sem nýtist í krefjandi aðstæðum.

Kærleikur í kaos er foreldranámskeið sem er ætlað foreldrum barna á aldrinum 3 – 10 ára en nýtist öllum sem vilja læra betur inn á börn með ADHD.

Kærleikur í kaos foreldranámskeiðið fer alfarið fram á vefnum, byggt upp sem fimm gagnvirkir þættir, barn með ADHD, fjölskyldan, leik og grunnskóli, viðurkenning og forðastu neikvæða athygli. Hver og einn getur nýtt námskeiðið á sínum hraða, hvar sem er og hvenær sem er. Þú getur valið að fara í gegnum alla þættina eða einungis þann sem hentar þínum aðstæðum og tekur á þeim verkefnum sem barnið og fjölskyldan glímir við hverju sinni. Allar upplýsingar um námskeiðið eru á heimasíðu ADHD samtakanna adhd.is

Kærleikur í kaos eykur skilning og býður upp á úrræði sem hafa nýst fjölmörgum. Námskeiðið er vísindalega árangursmælt og hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Niðurstaðan hefur leitt í ljós að foreldrar öðlast betri færni í uppeldi barna með ADHD, árekstrum fækkar og það bætir um leið samband foreldra og barns.

Hér er komið úrræði sem er einfalt í notkun og nýtist öllum sem eiga eða vinna með börnum með ADHD. Frábært skref í átt að því að byggja upp sterka sjálfsmynd hjá barni sem hefur skilning á sínu ADHD.

Höfundur er grunnskólakennari og verkefnastjóri fræðslumála hjá ADHD samtökunum.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×