Skoðun

Burt með bið­lista barna…nema þau búi í Reykja­vík!

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Í dag er 25. nóvember og því skammt í lok haustannar grunnskólabarna. Þrátt fyrir það er dóttir mín enn á biðlista eftir frístundaplássi í Reykjavík eins og fjölmörg önnur börn í borginni. Frá því ég flutti aftur til Reykjavíkur í Grafarvoginn, þá með ungabarn, hefur líf okkar fjölskyldunnar mótast af biðlistum Reykjavíkurborgar. Ég keyrði með bæði börnin mín í heilt ár í dagvistun vestur í bæ á meðan við biðum eftir leikskólaplássi, enda er hvergi lengri biðlisti á landinu. Og frá því þau hófu grunnskólagöngu hefur haustið hafist á biðlista eftir frístundaplássi. Bið sem er nú farin að teygja sig inn í hátíðirnar.

Foreldrar ungra barna og börnin sjálf eru í gjörólíkri stöðu eftir sveitarfélögum. Í nágrannasveitarfélögunum Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði og Seltjarnarnesi sem er stýrt af sjálfstæðismönnum bíða engin börn eftir frístundaplássi. Þar er að jafnaði verið að taka 12-15 mánaða börn inn á leikskóla, en meðaltalið er um 22 mánaða í Reykjavík.

Örvænting foreldra í Reykjavík vegna þessara biðlista er öllum kunnug. Það er óskiljanlegt hvernig vandamálið virðist mun flóknara í Reykjavík en öðrum sveitarfélögum. Þjónusta við börn er þeim sem stýra Reykjavíkurborg um megn; Viðreisn, Samfylkingu, Framsókn og Pírötum. Foreldrar reykvískra barna þurfa að gera ráð fyrir að þurfa að brúa langt bil milli fæðingarorlofs og dagvistunar - mun lengur en aðrir. Grunnskólabörn í Reykjavík geta ekki treyst á að komast í rútínu á frístundaheimilum á haustin eftir rótleysi sumarfrísins.

Það er óhætt að segja að það skjóti skökku við að sjá Viðreisn auglýsa núna: „Burt með biðlista barna“. Ekki síst þegar maður les smáa letrið og áttar sig á að flokkurinn á ekki við biðlistana sem hann hefði nú þegar getað eytt í Reykjavík. „Betra líf fyrir fjölskyldur“ Samfylkingarinnar og „B fyrir börn“ Framsóknar virðist sömuleiðis undanskilja mörg börn í Reykjavík.

Við barnafólkið erum búin að fá okkur fullsödd af metnaðarleysi og lélegri forgangsröðun þeirra sem stýra Reykjavíkurborg. Ég hvet frambjóðendur þeirra til Alþingis, sem sitja reyndar margir hverjir nú þegar í borgarstjórn, til þess að einbeita sér að börnunum í Reykjavík sem mætt hafa afgangi undir þeirra stjórn.

Tryggið börnum og fjölskyldufólki betri grunnþjónustu strax. – Burt með biðlista barnanna í Reykjavík!

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi flokksins í 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×