Skoðun

Endur­hugsum dæmið, endur­nýtum textíl

Guðbjörg Rut Pálmadóttir skrifar

Ekki verður um það deilt að með því að versla í Rauðakrossbúðunum slærð þú tvær flugur í einu höggi, þú styrkir mannúðarverkefni Rauða krossins og tekur virkan þátt í endurnýtingu textíls sem dregur úr textílsóun.

Endurnýting á fatnaði og textíl er mikilvægur liður í baráttunni gegn skaðlegum umhverfisáhrifum textíliðnaðarins, sem eru orðin áþreifanleg á heimsvísu.

Á undanförnum árum hefur áhugi almennings á endurnýtingu fatnaðar og textíls aukist til muna. Þetta er mikilvægt skref í rétta átt, þar sem fólk hefur áttað sig á því að kaupa notaðan fatnað er ekki neyðarúrræði heldur raunverulegur og fýsilegur valkostur. Í Rauðakrossbúðunum má finna einstakan og vandaðan fatnað á mun hagstæðara verði en því sem nýr fatnaður kostar. Notaður fatnaður er bæði hagkvæmur og skemmtilegur kostur fyrir þá sem hafa áhuga á að þróa með sér áhugaverðan og öðruvísi fatastíl. Eldri fatnaður er oft vandaður og litríkur og litlar líkur á að þú mætir mörgum á förnum vegi í eins flík.

Opnun Rauðakrossverslunar í Kringlunni var mikilvægur áfangi og glöggt merki um að almenningur er opnari fyrir hugmyndinni um endurnýtingu. Til að draga enn frekar úr textílsóun er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á innlenda endurnýtingu. Um leið þurfum við að vera meðvituð um kaup okkar og velja fatnað sem hægt verði að nota og endurnýta sem lengst.

Fatasöfnun Rauða krossins gegnir mikilvægu hlutverki, bæði sem fjáröflunarverkefni fyrir mannúðarmál og sem hlekkur í hringrásarhagkerfinu. Þrátt fyrir breytingar vegna nýrra hringrásarlaga, sem fela sveitarfélögum ábyrgð á úrgangsmálum þ.m.t. textíl, ætlar Rauði krossinn að halda sinni fatasöfnun áfram óháð sveitarfélögum í nafni mannúðarmála og endurnýtingar. Tekið er við framlögum í söfnunarkassa sem staðsettir eru í Efstaleiti 9 og Skútuvogi 1 á höfuðborgarsvæðinu. Staðsetning fleiri söfnunargáma verður tilkynnt fljótlega.

Þú getur haft mikil áhrif með því að taka þátt í þessari hringrás. Með því að endurnýta föt og textíl stuðlum við að sjálfbærari framtíð og sýnum að við metum bæði manneskjur og náttúruna. Það er á okkar ábyrgð að breyta hegðun okkar í þágu betri heims og vera jákvætt hreyfiafl í samfélaginu.

Höfundur er teymisstjóri Fataverkefnis Rauða krossins.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×