Skoðun

Hægt og hljótt

Dofri Hermannsson skrifar

Einkavæðing almannarýmisins er í fullum gangi. Hægt og hljótt.

Loftslagslausnarar í erlendum gullstrengjum panta upp land fyrir risavaxna vindmyllugarða. Lofa sveitastjórnum gleri fyrir gull. Aðrir kaupa upp jarðir smánaðrar bændastéttar til að rækta aflátsskóga.

Laxeldismógúlar troða sér upp á byggðir sem vilja ekkert með þá hafa. Sumir bjóða sveitarfélögum prósentur í hagnaði til að liðka fyrir ákvörðunum skipulagsvaldsins. Líkt og að bjóða fólki prósentur af því að selja ömmu sína.

Á jökulsporðum slást leiðsögumenn um rétt vinnuveitenda sinna til að selja aðgang að íshellum. Landeigendur rukka bílastæðagjöld við náttúruperlur án lagaheimilda. Fjárfestar byggja hálendishótel. Fjallkonan komin á Onlyfans.

Þetta er stefnulaust samfélag. Það er okkur sjálfum að kenna. Við nennum ekki að hugsa fram í tímann. Þorum ekki að standa vörð um dýrgripi okkar. Setja græðginni mörk. Gera kröfu um að fá tíma til að ræða málin.

Það vantar stefnu um vindorku. Stefnu um fiskeldi. Stefnu um gjaldtöku af ferðaþjónustu. Stefnu um landbúnað og landnýtingu. Stefnu um (erlend) uppkaup á almannarýminu.

Nú eru kosningar. Þið sem nennið að hugsa og viljið vanda til verka. Gjaldið varhug við flokkum sem ætla að leysa allt strax. Það má vanda sig við ákvarðanir sem hafa áhrif á hag þjóðarinnar um langa framtíð.

Höfundur er MSc í hagvísindum.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×