Skoðun

Lög­gilding iðn­greina stuðlar að auknum gæðum og öryggi

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Á undanförnum árum hafa ýmsir stjórnmálaflokkar sótt hart að réttindum launafólks á fjölmörgum sviðum. Svo virðist sem staða launafólks megi ekki vera sterk eða réttindi góð. Eitt þeirra mála eru starfsréttindi þar sem kröfur eru gerðar til menntunar og færni til að sinna ákveðnum störfum svo sem störf iðnaðarmanna. Til þess að starfa sem húsasmiður þá þarft þú að hafa lokið sveinsprófi sem slíkur, þú þarft að vera rafvirki til að vinna verkefni rafvirkja, matreiðslumaður til að elda matinn á vinnustöðum og stýra rekstri mötuneyta. Þessar kröfur eru ekki tilkomnar að ástæðulausu. Það þarf að tryggja fagmennsku og þekkingu í þessum störfum.

Allar þær kröfur sem gerðar eru til starfanna eru tilkomnar ýmist vegna gæða, þjónustu eða öryggismála. Við sem samfélag gerum kröfur til þess að húsin okkar séu vel byggð þannig að ekki stafi hætta af þeim, þannig að síður komi fram gallar á húsnæðinu og að öryggi starfsfólks sé tryggt á meðan á byggingu stendur. Með aukinni þekkingu á verklagi er hægt að tryggja öryggi á vinnustöðum þannig að fólk fari heilt heim úr vinnu á hverjum degi.

Þegar slakað er á kröfum eykst hættan á „frávikum“ verulega og getur öryggi og heilsu fólks verið ógnað. Það er þess vegna sem gríðarlega mikilvægt er að vanda til verka, gera ríkar kröfur til fyrirtækja sem taka að sér hin ýmsu verkefni í samfélaginu.

Við sem samfélag verðum að gera ríkar kröfur til allra til þess að tryggja öryggi á vinnustöðum. Við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við dauðsföll á vinnustöðum. Í byggingariðnaði, þar sem flest vinnuslys hafa orðið á undanförnum misserum, þurfum við sérstaklega að taka höndum saman til þess að tryggja öryggi fólks og koma í veg fyrir öll slys.

Það er þess vegna sem nauðsynlegt er að standa vörð um löggiltar iðngreinar og þar þurfum við frekar að sækja fram um að bæta lagaumgjörð um þær í stað þess að brjóta þær niður. Ég mun beita mér fyrir bættu starfsumhverfi iðnaðarmanna þar sem réttindi verða varin.

Höfundur er iðnaðarmaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×