Körfubolti

Pep Guardiola hjálpaði Boston Celtics að vinna NBA titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola þekkir ekkert annað en að vinna titla og nóg af þeim. Nú er hann líka farinn að hjálpa vinum sínum í öðrum íþróttum að vinna titla.
Pep Guardiola þekkir ekkert annað en að vinna titla og nóg af þeim. Nú er hann líka farinn að hjálpa vinum sínum í öðrum íþróttum að vinna titla. Getty/Michael Regan

Það vakti athygli þegar Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, mætti til Boston fyrir fyrsta leikinn á móti Dallas Mavericks í úrslitaeinvíginu um NBA titilinn í körfubolta. Nú er komið í ljós að þessi frábæri knattspyrnuþjálfari kann sitthvað fyrir sér í körfuboltanum líka.

Joe Mazzulla, þjálfari NBA-meistara Boston Celtics, talaði um það eftir að titilinn var í höfn að spænski knattspyrnustjórinn hefði hjálpað honum við það að finna leiðir í gegnum vörn Dallas.

Boston vann úrslitaeinvígið á móti Dallas mjög sannfærandi 4-1 þar sem varnarleikur liðsins og liðssamvinna var í fyrirrúmi. Dallas burstaði reyndar einn leik og minnkaði þá muninn í 3-1 en í hinum var Boston í mjög góðum málum. Lokaleikinn vann Celtics mjög sannfærandi.

Guardiola sást meðal annars vera að útskýra hluti fyrir Mazzulla inn á gólfinu og fyrir framan alla ljósmyndarana. Þar leit út fyrir að hann væri að sýna Boston þjálfurunum hvar væri réttu leiðirnar inn á vellinum.

Mazzulla vottaði þær pælingar eftir að titilinn var í höfn því að hann þakkaði Guardiola fyrir góð ráð.

„Dallas spilar einn klárasta og besta varnarleikinn í deildinni. Pep var að hjálpa mér með það, með því að búa til pláss inn á vellinum. Það var mjög mikilvægt. Hann hjálpaði mér að sjá hvernig væri best að hreyfa leikmenn okkar í hröðu sóknunum,“ sagði Joe Mazzulla.

Er það eitthvað sem Guadriola getur ekki? Hann er búinn að vinna sautján titla á síðustu sex árum með Manchester City og alls 39 titla á þjálfaraferlinum. Hver veit nema að hann skipti bara yfir í körfuboltann þegar hann leitar sér að næstu áskorun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×