Fótbolti

Mættur á EM eftir að hafa gengið frá Glas­gow til München

Aron Guðmundsson skrifar
Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar að Craig Ferguson mætti til Munchen
Það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar að Craig Ferguson mætti til Munchen

Einn maður hefur lagt meira á sig en margir aðrir til þess að verða viðstaddur opnunarleik Evrópumótsins í fótbolta, milli Þýskalands og Skotlands í München í kvöld. Sá er stuðningsmaður skoska landsliðsins og heitir Craig Ferguson.

Það brutust út mikil fagnaðarlæti í miðborg München seinni partinn í gær þegar að Ferguson mætti á svæðið. Hann hefur lagt að baki rúmlega eitt þúsund og sex hundruð kílómetra, gangandi, frá Hampden Park í Glasgow til München. 

Þessi 20 ára gamli strákur hefur einnig lagt þetta á sig til stuðnings góðu málefni og safnað rúmlega fimmtíu þúsund pundum, því sem nemur rétt tæpum níu milljónum íslenskra króna. 

Hann fékk höfðinglegar móttökur við komuna í miðborg München líkt og sjá má hér fyrir neðan. Hann verður síðan mættur á Allianz leikvanginn í kvöld að styðja sína menn í skoska landsliðinu í opnunarleik EM þetta árið gegn gestgjöfum Þýskalands.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×