Hinn 43 ára gamli Scott kemur frá Ástralíu og hefur unnið eitt risamót á ferlinum. Sá sigur kom árið 2013 þegar hann vann Mastersmótið. Hann lenti í öðru sæti á Opna breska árið 2012 og hefur tvívegis verið jafn öðrum kylfing í 3. sæti á PGA-meistaramótinu.
Scott hefur hins vegar afrekað það að taka þátt á öllum risamótum í golfi síðan árið 2001. Þetta ótrúlega gengi hans er nú í hættu þar sem hann hefur ekki tryggt sér sæti á Opna bandaríska meistaramótinu sem hefst í næstu viku.
Scott tapaði í bráðabana um sæti á mótinu og þarf nú að bíða og sjá hvernig kylfingunum sem eru rétt fyrir neðan hann á heimslistanum gengur á Memorial-mótinu. Sem stendur er Scott í 60. sæti heimslistans og gæti það dugað Scott þar sem enn eru sex boðsæti laus en þau fara eingöngu til kylfinga í efstu sextíu sætunum.
UNBELIEVABLE PLAYOFF DRAMA!
— U.S. Open (@usopengolf) June 4, 2024
Adam Scott chips in and Cam Davis shows nerves of steel by rolling a birdie right behind him! pic.twitter.com/6MqYheJG5p
Málið er hins vegar að Scott er ekki að spila á Memorial-mótinu um helgina en þar taka nokkrir af þeim kylfingum sem eru rétt fyrir neðan Ástralann á heimslistanum þátt. Þeir kylfingar þurfa einfaldlega að spila nægilega illa til að Scott haldist í 60. sæti og fái þar með að taka þátt á 92. stórmótinu í röð.
Gangi það ekki eftir og Scott endi neðar á listanum þá gæti hann enn komist á Opna bandaríska ef einhver þarf að draga sig úr keppni vegna meiðsla. Það er þó talið ólíklegt ef marka má miðilinn Golf Digest.
Aðeins Jack Nicklaus hefur spilað á fleiri risamótum í röð heldur en Scott. Gyllti björninn, eins og hann er oftast nær kallaður, tók þátt í öllum risamótunum í golfi frá 1962 til 1998 eða alls 146 í röð. Nú er að bíða og sjá hvort Scott haldi áfram að saxa á met Nicklaus eða hvort hans samfelldri stórmótaþáttöku sé lokið.