Viðskipti innlent

Hætta við hluta­fjár­út­boð og skráningu Íslandshótela

Samúel Karl Ólason skrifar
Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.
Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela. Vísir/Arnar

Ákveðið hefur verið að hætta við hlutafjárútboð Íslandshótela og skráningu félagsins í Kauphöllina. Er það vegna þess að ekki fengust áskriftir fyrir öllum boðnum hlutum og hættu seljendur því við.

Hlutafjárútboðinu lauk klukkan fjögur í dag.

Í yfirlýsingu frá forsvarsmönnum félagsins segir að vel á þriðja þúsund manna hafi tekið þátt í útboðinu og skráð sig fyrir hlutum að verðmæti um átta milljarða króna.

Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela, segir markaðsaðstæður hafa verið erfiðar að undanförnu þær hafi ekki orðið auðveldari.

„Efnahagsumhverfið er erfitt, markaðir þungir og vaxtastig hátt, en okkur þótti samt rétt í ljósi mikils áhuga á félaginu að athuga með skráningu á þessum tímapunkti. Niðurstaðan er hins vegar sú að hluthafar og stjórn hafa tekið þá ákvörðun að falla frá útboði og skráningu.“

Allir fastráðnir starfsmenn Íslandshótela áttu að fá hluti í félaginu að gjöf. Alls áttu 632 starfsmenn að fá hlutabréf sem hefðu, miðað við lágmarksgengið fimmtíu krónur á hlut, að mestu verið um hálfrar milljónar króna virði.


Tengdar fréttir

Verðmetur Ís­lands­hótel 45 prósentum yfir út­boðs­gengi fyrir minni fjár­festa

Hlutafjárvirði Íslandshótela er metið á ríflega 41 milljarð króna samkvæmt nýrri verðmatsgreiningu vegna hlutafjárútboðs hótelkeðjunnar, umtalsvert meira sé miðað við útboðsgengið í tilfelli minni fjárfesta. Hlutabréfagreinandi telur að ferðaþjónustufyrirtækið, sem verður hið fyrsta til að fara á markað hér á landi, búi yfir tækifærum til vaxtar og tekjurnar fari að nálgast tuttugu milljarða á næsta ári.

Al­mennt út­boð Ís­lands­hótela hefst á morgun

Íslandshótel birtu í dag útboðslýsingu vegna fyrirhugaðrar skráningar á Aðalmarkað Nasdaq Iceland en almennt útboð á hlutabréfum félagsins hefst klukkan tíu í fyrramálið, þriðjudaginn 14. maí og lýkur á miðvikudaginn, 22. maí, klukkan 16.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×