Skoðun

Van­mat á hug­vísindum og staða ís­lenskra fræða

Lára Magnúsardóttir skrifar

Í gær birtist grein eftir mig á þessum vettvangi um Þingvelli. Rakið var hvernig ábyrgð á þessum helgistað Íslendinga, sem á að njóta verndar Alþingis, verður ekki annað en stjórnsýsluverkefni á sviði náttúruverndar hjá undirstofnun umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins ef fyrirliggjandi frumvarp um Náttúruverndar- og minjastofnun verður samþykkt óbreytt. Í greininni nefndi ég einnig það furðulega fyrirkomulag að stjórnsýsla með menningarminjum skuli hafa verið lögð undir umhverfisráðuneytið með málefnum náttúruverndar. Í annarri grein eftir mig sem kemur út í Skírni í júní færi ég þá staðreynd í tal að bæði útvarpsstjóri og dagskrárstjóri Rásar 1 eru lögfræðingar að mennt og að enginn þeirra sem mótar stefnu Ríkisútvarpsins í fjölmennri stjórn árið 2023 var með æðra háskólapróf í neinni þeirri fræðigrein sem kallast á við menningarleg markmið og hlutverk Ríkisútvarpsins. Alþingi staðfesti það fyrirkomulag í apríl á þessu ári þegar nýtt fólk var kosið í stjórnina. Stjórnin skiptir sér ekki af dagskrárstefnu, þvert á það sem segir í lögum og hvorki Fjölmiðlanefnd né Ríkisendurskoðun telja dagskrármál heldur heyra undir eftirlitsskyldur sínar. Þar af leiðandi er hvergi tryggt að stefnan eða dagskráin sjálf sé byggð á faglegum sjónarmiðum, eins og segir þó skýrt í lögum að skuli vera.

Ábyrgð og gáleysi

Allt er þetta til marks um vanmat á hugvísindalegri þekkingu og sérhæfingu í menntun á þeim sviðum hjá opinberum stofnunum. Þróunin í þá átt hjá Ríkisútvarpinu er svo skýr að nánast er hægt að fullyrða að menntafólki í hugvísindum sé haldið frá stjórnunarstörfum og mótun á dagskrárstefnu fyrir Rás 1. Að öllum líkindum er svipaða sögu að segja um Þingvelli, sem hafa sífellt verið grafnir dýpra í stjórnsýslunni undir þjóðgarða- og náttúruverndarlögum og stjórn umhverfisráðuneytis og er með því verulega dregið úr líkum á að sérstæð menningarleg staða þeirra meðal þjóðarinnar geti notið sín.

Sambærilegt gáleysi sést miklu víðar. Það vakti til dæmis furðu nýverið þegar safnstjóri var fluttur milli Listasafns Íslands og Þjóðminjasafnsins eins og menntun embættismanna á starfssviði höfuðsafna landsins á sviði myndlistar og menningarminja sé aukaatriði. Samkvæmt lögum á forstöðumaður Þjóðminjasafns þó að hafa háskólamenntun og góða þekkingu á starfssviði safnsins og í Listasafninu sérfræðilega menntun og staðgóða þekkingu á myndlist og rekstri listasafna. Forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands er vitanlega með doktorspróf í líffræði, en ráðherra gerði því skóna að enginn sá munur sé á starfi Listasafnsins og Þjóðminjasafnsins sem gefi ástæðu til að gera ólíkar fagkröfur til stjórnenda. Sagan sýnir að við þannig aðstæður megi við því að búast að Ríkisendurskoðun leggi til sameiningu, nema slík ráðgjöf verið sótt til einkafyrirtækja. Það hefur til dæmis verið gagnrýnt að sveitarfélög skyldu biðja endurskoðunarfyrirtæki að ráðleggja sér að leggja niður skjalasöfn í hagræðingarskyni, en leita ekki samhliða álits hjá þeim sem best eru að sér um tilganginn sem þau þjóna.

Ólíkt því sem á við í almennum rekstri, eru fjármál menningarstofnunar afleiðing af starfseminni en ekki ástæða. Sérfræðingar í rekstri eru þar af leiðandi ekki réttu aðilarnir til að svara spurningum um reynslu af starfsemi skjalasafna í samræmi við markmiðin sem lögð voru til grundvallar með stofnun þeirra. Hið opinbera tekur hins vegar aðeins mið af kostnaði við ákvörðunina, allt í nafni góðrar stjórnsýslu, og stjórnmálamenn látast vera ábyrgir í fjármálum. Í aðferðinni felst hins vegar að enginn þarf að bera ábyrgð á ákvörðunum vegna þess að hver getur bent á annan því til sönnunar að engin lög hafi verið brotin. Það er vægast sagt lágkúruleg afstaða, enda eiga landsmenn kröfu á því að starfað sé af metnaði við stjórn á menningarmálum eins og á öðrum sviðum.

Fagmennska á menningarsviði er til

Titill áðurnefndrar Skírnisgreinar er „Það sem enginn getur gert nema ríkið. Dagskrárstefna fyrir Rás 1“ og þar færi ég rök fyrir því að Ríkisútvarpið sé menningarstofnun. Í Vísisgreininni í gær er rætt um þau menningarlegu sjónarmið sem voru ástæða þess að Þingvellir voru færðir undir vernd Alþingis sem þjóðareign. Menningarstofnanir eru innbyggðar í vestrænt stjórnarfyrirkomulag og tilgangurinn er að færa almenningi andleg gæði sem fyrr á öldum voru aðeins aðgengileg aðalsmönnum og æðstu klerkum, viðhalda þekkingu og halda uppi verk- og menntunarstigi í landinu. Þær þjónusta almenning, en mikilvægið felst í starfinu sjálfu og þær styrkja stöðu ríkisins innávið og útávið með því að viðhalda þekkingu og þjóna þannig lýðræðinu og þjóðfélaginu í heild.

Opinberar menningarstofnanir eru sérhæfðar fagstofnanir og líkurnar á því að innra starfið fullnægi tilganginum minnka verulega ef stefnumótun og stjórnun fer ekki fram á forsendum þess fags sem þær starfa á. Ef tilætluðum stöðlum er ekki haldið uppi innanhúss skapast stærri skekkja, því að þá geta þær ekki heldur veitt hver annarri aðhald. Slíkur ágalli kann að virðast léttvægur í upphafi en hann eykst með veldisvexti. Í Vísisgreininni vík ég að þeirri furðulegu stöðu að Minjastofnun skuli vera einangruð frá faglegu starfi á sínu sviði með því að hafa hana undir umhverfismálum í stjórnsýslu ríkisins þar sem henni er skipað með náttúruvernd. Sama á við um Þingvelli, sem hafa verið undir vernd og stjórn Alþingis sem (menningarsögulegur) helgistaður þjóðarinnar samhliða því að lúta lögum um náttúruvernd, en á nú endanlega að smætta niður í að verða einungis viðfangsefni stjórnsýslu á umhverfissviði.

Hugvísindi eiga í vök að verjast víðar en á Íslandi, ábyggilega vegna þess að þau hafa ekki tengsl við atvinnulífið, enda er hlutverk þeirra beinlínis að veita því aðhald eins og öðru með því að styrkja grundvöll þjóðfélagsumræðunnar. Framlag hugvísinda er heldur ekki talið í skýrslum um þjóðarhag, en hérlendis hefur þekking á huglægum málefnum í stjórnkerfinu veikst verulega og birtingarmyndirnar eru hvarvetna. Dæmin sem ég hef nefnt sýna að hugvísindaleg menntun er sniðgengin á Alþingi og í stjórnun og ákvörðunum sem varða sjálfstæðar ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki, stjórnsýslustofnanir og stofnanir á vegum sveitarfélaga. Einnig er hægt að nefna dæmi úr dómsýslunni, því að þegar Hæstiréttur átti aldarafmæli voru að minnsta kosti 52 íslenskir sagnfræðingar með doktorspróf, en samt var ákveðið þar innanhúss að ráða rithöfund með BA-gráðu í sagnfræði og MA-próf í ferðamálafræði til að skrifa sögu stofnunarinnar. Af þeim sökum eignaðist þjóðin ekki það grundvallarrit sem hefði verið eftirsóknarvert.

Einangrun íslenskra hugvísinda

Vanmat á hugvísindum hefur afleiðingar en það hlýtur einnig að eiga sér orsakir. Nú er staða þeirra sú, að ráðherra háskólamála hefur ekki lengur nein tengsl við menningarlíf því að ráðuneytið heitir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Ráðherranum er í mun að styrkja háskólanám í svokölluðum STEM greinum, en það eru fræðagreinar á sviði verkfræði, stærðfræði, raunvísinda og náttúruvísinda. Áætlanirnar miðast við mennta fólk til að vinna við þá hátækni sem víst þykir að verði grunnur að framtíðinni með því að styrkja sumar háskólanámsgreinar og er það allt gott og blessað. Þetta má samt skilja sem svo að aðrar deildir fái minni athygli og ef Háskóli Íslands er hafður til viðmiðunar, ná STEM greinar yfir tvö, kannski þrjú af fimm sviðum;Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Menntavísindasvið, Félagsvísindasvið og Hugvísindasvið. Hér er spurt um stöðu hugvísinda.

Í margnefndri Skírnisgrein vík ég að þeirri staðreynd að þrátt fyrir þá fjölgun sem hefur orðið á háskólum hérlendis starfrækir enginn þeirra eiginlegt hugvísindasvið annar en Háskóli Íslands. Í Háskólanum á Akureyri er Félags- og hugvísindasvið, en ekki er að sjá að skipuleg samfelld kennsla sé í undirstöðuaðferðum hugvísinda; deildirnar á sviðinu heita félagsvísindadeild, kennaradeild, lagadeild og sálfræðideild. Í Háskólanum í Reykjavík og á Bifröst eru ekki heldur vísbendingar um slíka kennslu og þrátt fyrir einstök námskeið fara þar ekki heldur fram rannsóknir eða kennsla í íslenskri málfræði, bókmenntum eða sögu. Á þeim fáu öðrum stöðum þar sem slíkar stöður eru fyrir hendi í landinu, svo sem á Akureyri og hjá Rannsóknasetrum Háskóla Íslands, er fyrirkomulagið með þeim hætti að því er hægt að breyta hvenær sem er. Af augljósum ástæðum er ekki heldur haldið úti skipulegu, heildrænu og samfelldu starfi á sviði rannsókna og kennslu í íslenskri tungu, sögu og menningu í öðrum löndum. Sú íslenskukennsla sem þar fram á undir högg að sækja eins og annað tungumálanám.

Af þessu leiðir að Háskóli Íslands er eini skólinn í víðri veröld þar sem tryggt er að fram fari rannsóknir og kennsla í íslenskum fræðum og útskrifaðir eru nemendur á öllum stigum og með æðri gráður, sem hafa staðist ströngustu fræðikröfur á því sviði. Þetta þýðir einnig að Hugvísindasvið Háskóla Íslands sé á einhvers konar undanþágu frá því að starfa undir faglegu aðhaldi. Ekki væri einvörðungu óraunhæft að ætla þetta hefði ekki víðtækar afleiðingar, heldur væri slík ályktun beinlínis andstæð viðurkenndum stöðlum. Mótstaða, aðhald eða samkeppni af einhverju tagi er talið bráðnauðsynlegt öllu vísindastarfi, rétt eins og í viðskiptum og fjölmiðlun og raunar einnig í lýðræðislegum stjórnmálum, þar sem valdinu er deilt í þrennt.

Að öðrum kosti skapast hætta á að stofnun fari að lúta eigin lögmálum, eins og kann til dæmis að hafa gerst í námsbraut í sagnfræði. Af þeim 12 sem hafa atvinnu af því að rannsaka og kenna 1150 ára sögu Íslands við Háskólann, eru tveir sérfræðingar fyrir fyrstu fjórar aldirnar, enginn fyrir tímabilið 1270-1550 og einn sérfræðingur í tímanum frá siðaskiptum og fram eftir 18. öld. Hins vegar eru, auk skjalfræðings, 8 sérfræðingar í sögu 19. og 20. aldar. Þetta er ekkert nýtt, því að Háskóli Íslands hefur um áratugaskeið vanrækt rannsóknir og kennslu á sögulegum heimildum frá tímabilinu á næstum helmingi Íslandssögunnar, u.þ.b. 1270-1750. Í því samhengi sem hér er talað er athyglisverðast að það skuli ekki fyrir löngu hafa komið upp á yfirborðið, sem væri sennilega óhugsandi ef fyrir hendi væri annar vettvangur fyrir sagnfræðirannsóknir og kennslu.

Áframhaldandi sameiningarstefna er ekki gæfuleg

Allar umræður um stöðu og vægi íslenskrar tungu og menningar hljóta að vera nátengdar undirstöðustofnunum og þar gegnir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum grundvallarhlutverki. Þar eru til dæmis varðveitt og rannsökuð handrit og skjalagögn sem afhent voru Íslandi frá Danmörku árið 1971, en samkvæmt lögum er ríkisstjórn Íslands verndari þeirra. Hún er nú þegar sameiningarstofnun sem varð á sínum tíma til úr fimm sjálfstæðum stofnunum: Íslenskri málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands. Markmið og skyldur stofnunarinnar eru annars eðlis en í háskóla, þar er til dæmis ekki kennsla, en henni ber til dæmis að miðla fræðilegri þekkingu og varðveita og efla þau söfn sem henni eru falin eða hún á.

Mikilvægi Stofnunar Árna Magnússonar í íslensku þjóðfélagi liggur ekki aðeins í miðaldahandritum, því að hún er til komin sökum margvíslegrar sérstöðu íslenskrar menningar, sögu og tungu. Íslenska er aðeins til í þessu eina landi, hún er hvergi annars staðar notuð við stjórn á ríki og meðferð hennar varðar þannig þjóðarheill. Það styrkir Árnastofnun að eiga að hluta til systurstofnun í Kaupmannahöfn, þar sem enn eru varðveittar heimildir um sögu Íslands og fram fara öflugar rannsóknir og miðlun. Nú eru uppi ráðagerðir um að veikja þá stöðu með því að beina því starfi inn í Árnastofnun: „Það er nauðsynlegt að Íslendingar fái til sín fleiri handrit frá Danmörku, hinn íslenska fjársjóð“, er haft eftir menningarmálaráðherra á vef stjórnarráðsins. Þetta gæti hljómað eins og sanngirnismál, tillaga um að leggja niður hluta dönsku stofnunarinnar eða sameiningartillaga við danska stofnun, án þess þó að nokkur fjárhaglegur ávinningur hljótist af. Að minnsta kosti er óvíst hvort nokkur fræðileg markmið liggi að baki, því að í sannleika sagt er starfið í Danmörku eins og ómetanlega hár happdrættisvinningur fyrir íslensk fræði og þeim mun öflugra sem það er, því betra fyrir Ísland.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur tengsl við Háskóla Íslands samkvæmt lögum og sérstökum samningi við íslensku- og menningardeild. Henni hefur nú blessunarlega verið komið fyrir í einu húsnæði, Eddu, og þangað var Íslensku- og menningardeild Háskóla Ísland einnig flutt, þrátt fyrir að hún heyri undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Um svipað leyti og það var ákveðið, árið 2021, mælti Ríkisendurskoðun með því að samvinna Stofnunar Árna Magnússonar við Háskólann yrði aukin og stofnunin jafnvel sameinuð honum (Stofnanir ríkisins. Fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni. Skýrsla til Alþingis. Stjórnsýsluúttekt Desember 2021 bls. 10). Tillagan var ekki rökstudd út frá neinum faglegum sjónarmiðum en hún er afleiðing af því hvernig heildarskipulag hefur þróast undanfarna áratugi, meðal annars því að rannsóknum og kennslu í íslenskum fræðum hefur ekki verið skapað eðlilegt starfsumhverfi.

Til skýringar á þessu má gera sér í hugarlund að til væri annar vettvangur fyrir rannsóknir og kennslu á háskólastigi á sviði hugvísinda og íslenskra fræða en sá eini sem nú er fyrir hendi – jafnvel má ímynda sér hugvísindasvið í þremur Íslenskum háskólum þar sem íslensk fræði væru vitanlega innanborðs. Hefði þá komið til greina að sameina Árnastofnun við eitt þeirra? Þætti einhverjum eðlilegt að undirstöðustofnun þjónaði einum umfram aðra?

Lokaorð

Þær þrjár ritgerðir sem ég set nú frá mér, ein í Skírni og tvær á visir.is, eru tilraun til þess að skapa forsendur fyrir málefnalegri umræðu um stjórn á menningarsögulegum málefnum á Íslandi, en dæmin sýna að á því sviði er besta þekking ekki notuð. Stjórnmálamenn hafa glatað metnaði fyrir hönd málefnisins og látið viðgangast að stjórnsýslan taki yfir málefni fagstofnanna með endurskoðunargögn í höndunum, jafnvel þótt lög geri ráð fyrir að þær njóti sérstakrar verndar Alþingis og ríkistjórnar. Afleiðingarnar eru að í mörgum tilvikum færist starfsemi stofnana og fyrirtækja ríkisins í átt frá þeim markmiðum sem réttlæta og skýra tilvist þeirra.

Hvort sem litið er á íslenska tungu sem fjársjóð eða byrði er einfaldlega nauðsynlegt hverju ríki að fyrir hendi sé þekking á eigin tungu, sögu og bókmenntum og óumflýjanlegt er í lýðræðisríki að þeim málaflokkum sé sinnt af alúð. Tunga og saga og menning mynda samt sem áður einstæðan flokk á Íslandi, vegna þess að heimildir um þetta eru ekki aðeins miklu viðameiri en búast má við hjá jafnfámennu ríki, heldur eru þær á tungumáli sem engir aðrir hafa hagsmuni af að þekkja til hlítar. Það leggur auk þess einstæðar skyldur á stjórnmálamenn og stofnanir að tungan sem notað er við stjórn landsins sé hvergi annars staðar til. Þess vegna varða íslensk fræði ekki aðeins fortíðina, heldur eru þau beinlínis grundvöllur að starfi ríkisins í samtíð og framtíð. Eina leiðin til þess að sinna þessum málefnum er að tryggja eins faglegan umbúnað og mögulegt, en stjórnsýslustofnanir og endurskoðendur geta ekki leitt slík verkefni. Metnaðurinn verður að liggja hjá stjórnmálamönnum.

Höfundur er sagnfræðingur.


Tengdar fréttir

Hvað er það sem Al­þingi ber að vernda á Þing­völlum?

Þegar ráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun 20. mars sl. sagði hann: „með tilkomu nýrrar stofnunar verði stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallanefnd ekki lengur stjórnir yfir sjálfstæðum ríkisstofnunum“.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×