Upp­gjörið og við­töl: Grinda­vík - Kefla­vík 112-63 | Grind­víkingar í úr­slit eftir ruglaðan síðari hálf­leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Síðari hálfleikur Grindavíkur var eins og klipptur úr kvikmyndinni Space Jam [Þeirri með Michael Jordan, ekki LeBron James].
Síðari hálfleikur Grindavíkur var eins og klipptur úr kvikmyndinni Space Jam [Þeirri með Michael Jordan, ekki LeBron James]. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík er komið í úrslit Subway-deildar karla í körfubolta eftir einhvern ótrúlegasta oddaleik síðari ára. 

Það var ekki mikið skorað í byrjun en tveir þristar frá Keflavík undir lok leikhlutans breyttu stöðunni úr 8-7 í 8-13 og Jóhann Þór tók strax leikhlé. Vörnin hjá Keflavík var einfaldlega mjög góð, Grindvíkingar komust lítt áfram og staðan eftir fyrsta leikhluta 10-17.

Grindvíkingar náðu smám saman vopnum sínum í öðrum leikhluta. Sóknarleikurinn gekk miklu betur, eftir þrist frá Maric gerði Grindavík níu stig í röð og 31 stig skorað alls. Keflvíkingar voru þó ekkert á því að gefast upp og voru að skjóta vel fyrir utan en flautuþristur frá Kristófer Breka þýddi að Grindavík leiddi með einu stigi í hálfleik, staðan 41-40.

Grindvíkingar áttu á þessum tímapunkti hinn tilfinningaríka DeAndre Kane nánast alveg inni en megnið af orku hans framan af leik hafði farið í að svekkja sig á dómgæslunni. Sex stig frá honum í hálfleik og þrír tapaðir boltar.

Kane sækir að körfunniVísir/Hulda Margrét

Kane virðist hafa tekið þessi skrif til sín, þó þau hafi verið óbirt á þessum tímapunkti, en hann byrjaði seinni hálfleikinn á að setja þrjá þrista en Grindvíkingar byrjuðu leikhlutann á 14-1 áhlaupi og bættu svo bara í, 24-3 áhlaup og staðan orðin 65-43 og leikhlutinn ekki einu sinni hálfnaður. Pétur tók sitt annað leikhlé en Keflvíkingar fundu engin svör á meðan Keflvíkurhraðlestin fór algjörlega út af sporinu.

Grindavík endaði á að setja tíu þrista í leikhlutanum og héldu Keflavík í níu stigum, staðan 81-49 fyrir lokaleikhlutann og aðeins stórslys og kraftaverk í sitthvora áttina gat komið í veg fyrir sigur Grindvíkinga í þessum leik. 

Basile fagnar í leikslok með ungmennaliði Grindavíkur sem kláraði leikinn í kvöldVísir/Hulda Margrét

Trú Keflavíkur var algjörlega mölbrotin og tókst þeim aldrei að gera leikinn spennandi í fjórða leikhluta, lokatölur í þessum magnaða leik 112-63. Það er því Grindavík sem er komið í úrslit Subway-deildarinnar og mætir þar Val.

Atvik leiksins

Grindvíkingar lokuðu ágætum öðrum leikhluta með flautuþristi frá Kristófer Breka. Það var engu líkara en þar með snérist leikurinn og augnablikið yfir til Grindavíkur. Þeir litu í það minnsta ekki til baka eftir það og skoruðu 40 stig í næsta leikhluta.

Stjörnur og skúrkar

Dedrick Basile fór á kostum í seinni hálfleikVísir/Hulda Margrét

Dedrick Basile og DeAndra Kane tóku af skarið í seinni hálfleik þegar Grindavík þurfti á kröftum þeirra að halda. Basile endaði með 25 stig og átta stoðsendingar og Kane með 17 stig. Samanlagt voru þeir félagar með níu þrista í tólf skotum.

Það voru margir sem lögðu í púkkið hjá Grindavík í kvöld. Daniel Mortsen hélt þeim inni í leiknum í fyrri hálfleik, Ólafur Ólafsson setti fjóra þrista og Valur Orri Valsson kom með tólf stig af bekknum. Ólafur og Valur báðir með tólf stig, allt saman þristar. 

Daniel Mortensen hélt Grindvikingum inni í leiknum í fyrri hálfleikVísir/Hulda Margrét

Hjá Keflavík stóð vart steinn yfir steini eftir því sem leið á leikinn. Þeir lögðu árar í bát um leið og gaf á bátinn.

Það var glatt á hjalla hjá Keflvíkingum í byrjun leiksVísir/Hulda Margrét

Dómarar

Dómarar kvöldsins voru Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson og Jón Þór Eyþórsson. Simmi er alltaf til í samtalið og þrátt fyrir að Grindvíkingar væru svolítið að svekkja sig á ákvörðunum þeirra í byrjun er ekkert út á þeirra frammistöðu að setja.

Stemming og umgjörð

Ég hef aldrei séð Smárann svona troðfullan. Setið í hverju einasta sæti og staðið meðfram öllum veggjum. Eldvarnareftirlitið í Kópavogi hefði mögulega ekki samþykkt þennan fjölda í húsinu en látum það liggja á milli hluta.

Gulir og glaðir GrindvíkingarVísir/Hulda Margrét

Báðar stuðningssveitir létu vel í sér heyra en það er Keflvíkingum ekki til sóma hvað þeir gripu oft til líkamssmánunar í sínum söngvum. Hróp eins og „Valur hvalur“ og „Óli bolla“ er eitthvað sem fullorðið fólk ætti að skammast sín fyrir að hrópa inn á völlinn.

Stöðva þurfti leikinn tvisvar eftir að stuðningsmenn Keflavíkur fylltu völlinn af rusliVísir/Hulda Margrét

Þar fyrir utan setjum við hæstu einkunn á stemmarann og umgjörðina í Smáranum í kvöld.

Ósvikin gleðiVísir/Hulda Margrét
Það var góð stemming í Stúkunni hjá Stinningskalda og elsti meðlimur sveitarinnar, Sigurður Óli Þorleifsson, knattspyrnudómari með meiru, lét ekki sitt eftir ligga frekar en fyrri daginnVísir/Hulda Margrét
Tilfinningarnar báru Ingiberg Þór Jónasson, formann körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, ofurliði í kvöldVísir/Hulda Margrét

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira