Skoðun

Við styðjum Guð­mund Karl!

Katrín Valdís Hjartardóttir, Andrea Bóel Bæringsdóttir og Guðbjörg Harpa Ingimundardóttir skrifa

Að syngja í kór er góð skemmtun! En við í Kór Lindakirkju viljum að sem allra flest viti að við stöndum 100% á bak við Sr. Guðmund Karl í biskupskjöri. Þetta er auðvelt fyrir okkur að segja sem höfum fylgst mjög náið með störfum Sr. Guðmundar Karls, eða Gumma Kalla, eins og við þekkjum hann, í gegnum starfið í Lindakirkju, mörg hver til fjölda ára. Við höfum orðið vitni að ótrúlegri uppbyggingu í Lindakirkju undir hans stjórn á þeim árum sem hann hefur starfað þar og vitum að hann getur gert frábæra hluti fyrir þjóðkirkjuna alla.

Það er dýrmætt að tilheyra og hefur Gummi Kalli einstakt lag á því að láta öll finnast þau velkomin óháð stétt og stöðu. Hann lyftir hæfileikum hvers og eins og leiðir okkur áfram, enda laðast fólk að starfinu í Lindakirkju og ílengist hér. Starfið í Lindakirkju, sem er ein fjölmennasta sókn landsins, hefur vaxið innan frá og er ótrúlega fjölbreytt, gríðarlega vel sótt allt frá börnum upp í eldri borgara og allt þar á milli. Fjöldi sjálfboðaliða kemur að starfinu og Lindakirkja er full af lífi dag eftir dag.

Gummi Kalli nær líka á svo fallegan hátt að sameina hefðirnar sem óneitanlega fylgja kirkjunni við nýja og ferska hluti, sem sést ekki síst í því öfluga kórstarfi sem er í Lindakirkju, en á hverjum tíma eru yfir 50 manns í Kór Lindakirkju og annað eins í barna- og unglinga kórunum. Gummi Kalli er næmur, óhræddur og framsýnn leiðtogi og hefur hann verið opinn fyrir því að prófa ólíka hluti í tónlistarstarfi kirkjunnar, sem hefur leitt af sér glæsileg verkefni innan kirkjunnar og utan.

Það er okkar trú að Gummi Kalli sé núna sá leiðtogi sem þjóðkirkjan þarf á að halda, til að auka á einingu hennar, og vaxa og dafna innan frá.

Það er von okkar sem störfum með honum og vitum hvaða mann hann hefur að geyma að þið góða fólk sem hafið kosningarétt í biskupskjörinu kjósið vin okkar og samstarfsmann Sr. Guðmund Karl Brynjarsson sem næsta biskup!

Fyrir hönd Kórs Lindakirkju,

Katrín Valdís Hjartardóttir

Andrea Bóel Bæringsdóttir

Guðbjörg Harpa Ingimundardóttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×