Skoðun

Far­sælar for­varnir í þágu barna í Reykja­vík

Guðrún Halla Jónsdóttir og Óskar Dýrmundur Ólafsson skrifa

Forvarnir fyrirbyggja frekari vanda og auka líkurnar á farsælla lífi. Ný aðgerðaáætlun hjá Reykjavíkurborg tekst á við þá áskorun hvernig við getum stuðlað að farsælla lífi með góðum og árangursríkum forvörnum í málefnum barna.

Íslendingar hafa náð eftirtektarverðum árangri í forvarnarstarfi með börnum og ungmennum, svo góðum að til okkar er sótt eftir þekkingu um hvernig standa megi enn betur að forvörnum undir formerkjum íslenska forvarnarlíkansins. Í hnotskurn byggir þessi árangur á nánu samstarfi allra þeirra sem koma að lífi barna í nærumhverfi þeirra á sama tíma og niðurstöður viðhorfskannana og rannsókna eru nýttar.

Í endurskoðun aðgerðaráætlunar um forvarnir er byggt á gögnum úr rannsóknum, reynslu og stefnu úr forvarnar- og lýðheilsustarfi. Ákveðið var að áherslusviðin ættu að fjögur:

  • Fögnum fjölbreytileikanum
  • Ræktum andlega vellíðan
  • Við höfnum ofbeldi
  • Byggjum upp verndandi og styðjandi umhverfi fyrir börn og fjölskyldur.

Undir hverri áherslu er svo röð aðgerða sem borgarbúar eru hvattir til þess að kynna sér betur. Hægt er að kynna sér áætlunina í gögnum borgarráðs. Við innleiðingu aðgerðaráætlunarinnar verður lögð enn meiri áhersla á betra samstarf allra sviða borgarinnar, við ríkisstofnanir og svo almenning almennt, ekki síst foreldra og börn. Hér reynir á samstarf okkar allra og mikilvægt að sjá forvarnarstarfið borið uppi af samfélaginu öllu. Við viljum ná enn betri árangri og nýta betur möguleika sem gefast til forvarnarstarfs. Í því skyni hefur verið stofnað forvarnarteymi sem starfar fyrir alla borgina og þvert á stofnanir hennar. Í teyminu sitja fulltrúar frá hverju fagsviði sem sinna börnum og frá 4 borgarhlutum Reykjavíkur sem skipuleggja tengslanet og samstarf í hverfum við staðbundnar stofnanir og félagasamtök. Fyrir teyminu fer svo forvarnarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Þessi aukna áhersla á samstarf út frá þörfum barna og fjölskyldna er ekki síst tilkomin vegna breytinga á lögum frá árinu 2021 um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Í þessari löggjöf er sama nálgun og í íslensku líkani endurómuð; snemmtækar forvarnir, náið samstarf og staðbundin nálgun í daglegu lífi barna og fjölskyldna.

Því er ástæða til að skora á íbúa og foreldra til aukinnar þátttöku í forvörnum og spyrja hvernig getum við sem flest sameinast í forvarnarstarfi, börnum og fjölskyldum til aukinnar farsældar? Hægt er að koma góðum hugmyndum og beiðni um samstarf til Miðstöðva borgarinnar í gegnum ábendingavef Reykjavíkurborgar með tilvísun í aðgerðaáætlun forvarna.

Guðrún Halla Jónsdóttir, forvarnarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Óskar Dýrmundur Ólafsson, formaður starfshóps um gerð forvarnaráætlunar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Jón Þór Stefánsson skrifar

Sjá meira


×