Skoðun

Líknar­deild Land­spítala 25 ára

Ólöf Ásdís Ólafsdóttir og Arna Dögg Einarsdóttir skrifa

Í dag, 16. apríl er 25 ára afmæli Líknardeildar Landspítala í Kópavogi. Deildinni var komið á fót með sameiginlegu átaki Landspítala og Oddfellow reglunnar á Íslandi, sem ákvað í tilefni af 100 ára afmæli reglunnar að veita fé til uppbyggingar fyrstu og einu sérhæfðu líknardeildar landsins.

Í aðdraganda opnunar deildarinnar og á fyrstu árum hennar var unnið mikið grasrótarstarf leitt af fagfólki sem brann fyrir þróun líknarmeðferðar á Íslandi. Á þeim árum var áherslan fyrst og fremst á að sinna einstaklingum með krabbamein á lokastigum sjúkdómsferlis, en síðan hefur líknarmeðferð þróast þannig að hún á við í meðferð allra langvinnra lífsógnandi sjúkdóma svo sem hjarta-, tauga-, lungna- og nýrnasjúkdóma og á öllum stigum sjúkdóms þó vissulega aukist vægi hennar eftir því sem veikindin ágerast.

Líknardeildin í Kópavogi sinnir einstaklingum 18 ára og eldri og fjölskyldum þeirra. Áherslan er á heildrænt mat og meðferð einkenna til að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, andlegri og sálfélagslegri þjáningu. Áhersla er lögð á lífið og lífsgæði en litið á dauðann sem eðlileg þáttaskil. Á deildinni starfar öflugt teymi fagfólks; sérfræðilæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, prestur, sjúkraþjálfari og sérhæft starfsfólk. Þá er mikil og góð samvinna við sálfræðinga, félagsráðgjafa, næringarfræðinga og aðrar sérgreinar lækninga spítalans, allt eftir þörfum hvers skjólstæðings hverju sinni.

Með öldrun og fjölgun þjóðar mun fjöldi þeirra sem greinast með langvinna lífsógnandi sjúkdóma halda áfram að aukast á komandi árum. Meðferðum fleygir fram og ljóst að fólk lifir mun lengur með þessa sjúkdóma og fylgikvilla þeirra en áður fyrr. Þörfin fyrir góða líknarmeðferð mun því einnig aukast. Þannig verði fólki hjálpað að eiga sem best lífsgæði þrátt fyrir veikindi og ekki síður tryggð góð meðferð þegar ljóst er að lífslokin nálgast.

Það var mikil gæfa að félagar í Oddfellow reglunni skyldu af miklum myndugleik standa að endurbótum á húsnæðinu í Kópavogi og gefa Landspítala, ekki aðeins fjármagn heldur einnig ómælda vinnu og þannig stuðla að opnun deildarinnar. Þeirri sögu er haldið til haga og enn njótum við góðvildar Oddfellow sem reglulega hafa stutt við starfssemi deildarinnar þessi 25 ár. Fyrir það erum við sem störfum á deildinni afar þakklát.

Ólöf Ásdís Ólafsdóttir hjúkrunardeildarstjóri og Arna Dögg Einarsdóttir yfirlæknir Líknardeildar Landspítala í Kópavogi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×