Skoðun

Ó­vin­sælastur í heimi

Árni Pétur Árnason skrifar

Þegar Bjarni Benediktsson hrökklaðist úr embætti fjármálaráðherra í fyrra vildu 70% landsmanna losna við hann úr ríkisstjórn. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk vorið 2016 vildu 69% landsmanna losna við Bjarna úr ríkisstjórn. Í dag kom síðan í ljós að 78% Íslendinga vilja ekki að Bjarni sé forsætisráðherra. Einungis 13% vilja hafa hann í embættinu.

Einhvern veginn kom það ekki á óvart. Bjarni hefur alltaf verið óvinsæll, eða frá því hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins að minnsta kosti. Ástæðurnar eru líka fjölmargar: Vafningsmálið, Sjóður 9, styrkjamálið, Máttarmálið, Borgunarmálið, Panamaskjölin, skattaskjólsskýrslan í skúffunni, Samherjamálið, Íslandsbankamálið. Þetta eru bara málin sem snúast um vafasamt fjármálaathæfi Bjarna (fjármálaráðherra í tíu ár) síðustu 16 árin. Athæfi sem hefur kostað skattgreiðendur og ríkissjóð tugmilljarða hið minnsta. Þessi grein rúmar ekki hina skandalana hans en þó má nefna Uppreist æru-málið, Landsréttarmálið, Ásmundarsalarmálið og Lekamálið. Sem dæmi.

Það var eftir allt þetta sem Bjarni Benediktsson settist í stól forsætisráðherra í upphafi síðustu viku. En Bjarni er ekki bara óvinsæll, hann er óvinsælasti forsætisráðherra í heimi. Enginn annar kemst einu sinni þar sem Bjarni er með hælana.

Hin viðtekna leið til að reikna vinsældir ráðamanna er að draga prósentutölu andstæðinga þeirra frá prósentutölu fylgismanna þeirra. Þannig má segja að vinsældir Narendra Modi forsætisráðherra Indlands, sem jafnframt er sá vinsælasti í heimi, séu 75%-18%=57%. Store forsætisráðherra Noregs er mun óvinsælli, 26%-66%=-40%, og svona raða forsætisráðherrar og forsetar heimsins sér á ásinn. Næstóvinsælasti forsætisráðherra heims, sem hafði verið óvinsælastur mánuðum saman og allt þar til Bjarni tók við hér á landi, er Kishida forsætisráðherra Japan. Óvinsældir hans eru 16%-70%=-54%.

Óvinsældir Bjarna eru 11 prósentum meiri, 13%-78%=-65%. Þetta er forsætisráðherra Íslands. Sá óvinsælasti í heimi.

Höfundur er formaður Pírata í Kópavogi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×