Golf

Fær miklu meira borgað fyrir sigur á Masters í ár en fyrir tveimur árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scottie Scheffler fagnar sigri á Mastersmótinu í kvöldsólinni í gær, með bikarinn og kominn í græna jakkann.
Scottie Scheffler fagnar sigri á Mastersmótinu í kvöldsólinni í gær, með bikarinn og kominn í græna jakkann. AP/Matt Slocum

Scottie Scheffler er besti kylfingur heims samkvæmt heimslistanum i golfi og hann sýndi það og sannaði með frábærri frammistöðu á Mastersmótinu sem lauk í gær.

Scheffler lék hringina fjóra á ellefu höggum undir pari og endaði fjórum höggum á undan næsta manni.

Scheffler fékk ekki aðeins heiðurinn af því að klæðast græna jakkanum í mótslok því verðlaunaféð á Mastersmótinu hefur aldrei verið hærra en í ár.

Scheffler fékk alls 3,6 milljónir dollara fyrir sigurinn eða 512 milljónir íslenskra króna.

Þegar Scheffler vann Mastersmótið í fyrsta sinn fyrir tveimur árum þá fékk hann 2,7 milljónir dollara eða 384 milljónir króna á núvirði. Hann fær því 33 prósent meira fyrir sigur sinn í ár en þann fyrir aðeins tveimur árum síðan.

Svíinn Ludvig Åberg þarf ekki að kvarta mikið fyrir uppskeruna á sínu fyrsta risamótinu á ferlinum. Åberg var áhugamaður í Texas Tech skólanum fyrir ári síðan og var að reyna að verða fyrsti nýliðinn til að vinna Mastersmótið í fyrstu tilraun frá því að Fuzzy Zoeller gerði það árið 1979.

Åberg lék á sjö höggum undir pari eftir að hafa klárað lokadaginn á 69 höggum eða þremur höggum undir pari. Svíinn fékk 2,16 milljónir dollara fyrir annað sætið eða 307 milljónir króna.


Tengdar fréttir

Schef­fler í sér­flokki á Masters

Scottie Scheffler kom sá og sigraði Mastersmótið í golfi í ár. Þetta er í annað sinn sem hann fer með sigur af hólmi á Mastersmótinu á aðeins þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×