Körfubolti

Versta út­reið Ís­lands­meistara í fyrsta leik í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Tindastóls voru mörgum skrefum á eftir Grindvíkingum í gær. Hér hefur Dedrick Basile skilið eftir þá Adomas Drungilas og Keyshawn Woods.
Leikmenn Tindastóls voru mörgum skrefum á eftir Grindvíkingum í gær. Hér hefur Dedrick Basile skilið eftir þá Adomas Drungilas og Keyshawn Woods. Vísir/Vilhelm

Stólarnir hafa á þessu tímabili slegið hin ýmsu met yfir verstu frammistöðu Íslandsmeistara í titilvörn og í gær bættu þeir við enn einu slæma metinu.

Tindastóll tapaði með 23 stigum á móti Grindavík í Smáranum í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni Subway deildar karla í körfubolta. Þetta er langversti skellur Íslandsmeistara frá upphafi í fyrsta leik í úrslitakeppni árið eftir að þeir unnu titilinn.

Stólarnir meira en tvöfölduðu metið. Stærsta tapið fyrir leikinn í gærkvöldi var 11 stiga tap Keflavíkur á móti Grindavík í úrslitakeppninni 2000. Grindvíkingar halda því metinu yfir stærsta sigurinn á meisturum ársins á undan.

Stólarnir eru líka aðeins fimmtu Íslandsmeistararnir í sögu úrslitakeppninnar sem tapa fyrsta leik.

Úrslitakeppnin fór fyrst fram árið 1984 og fer fram í fertugasta skiptið í ár. Það þýðir að 35 af 40 Íslandsmeisturum hafa byrjað næstu úrslitakeppni á eftir með sigri í fyrsta leik eða 88 prósent meistaranna.

Hin liðin í hóp með Tindastól eru fyrrnefnt Keflavíkurlið frá 2000, KR liðið frá 2008, Njarðvíkingar frá 1992 og svo Valsmenn í fyrra. Valsliðið í fyrra tapaði fyrsta leiknum í einvíginu en vann svo næstu þrjá. Liðið endaði á því að fara alla leið í úrslitin en tapaði þá fyrir Tindastól í oddaleik.

Valsliðið í fyrra eru einu meistararnir sem hafa komist áfram í sínu einvígi eftir að hafa tapað fyrsta leiknum í titilvörninni. Nú reynir á Stólanna að breyta því.

 • Íslandsmeistarar sem hafa tapað fyrsta leik í úrslitakeppni árið eftir
 • Tindastóll 2024
 • Tapaði með 23 stigum á útivelli á móti Grindavík (88-111)
 • - staðan er 1-0 fyrir Grindavík
 • -

 • Valur 2023
 • Tapaði með 5 stigum á heimavelli á móti Stjörnunni (89-94)
 • - vann einvígið 3-1
 • -
 • KR 2008
 • Tapaði með 9 stigum á heimavelli á móti ÍR (76-85)
 • - tapaði einvíginu 1-2
 • -
 • Keflavík 2000
 • Tapaði með 11 stigum á útivelli á móti Grindavík (61-72)
 • - tapaði einvíginu 1-2
 • -
 • Njarðvík 1992
 • Tapaði með 2 stigum á heimavelli á móti Val (68-70)
 • - tapaði einvíginu 1-2Fleiri fréttir

Sjá meira


×