Handbolti

Læri­sveinar Arons misstu frá sér leikinn og ÓL-draumurinn er veikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson er landsliðsþjálfari Barein.
Aron Kristjánsson er landsliðsþjálfari Barein. Getty/TF-Images

Bareinska landsliðið tapaði með minnsta mun á móti Brasilíu í kvöld, 24-25, í öðrum leik sínum í umspili um tvö laus sæti á á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Aron Kristjánsson er landsliðsþjálfari Barein og eftir þetta tap eiga hans menn frekar litla möguleika á því að komast á leikana.

Liðið er stigalaust eftir tvo leiki og á bara eftir að mæta Slóvenum. Svo gæti farið að sigur þar skilaði liðinu sæti en líkurnar eru ekki miklar.

Barein var með á síðustu Ólympíuleikum og komst þá í átta liða úrslitin undir stjórn Arons.

Barein tapaði fyrsta leiknum sínum með tólf marka mun á móti sterku spænsku landsliði. Brasilíumennirnir töpuðu aftur á móti með aðeins eins marks mun á móti Slóveníu.

Aron gíraði sína menn greinilega vel upp fyrir leikinn. Barein var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-11. Liðið var áfram með frumkvæðið í upphafi seinni hálfleiks en þá fóru Brassarnir í gang.

Þeir unnu upp forskotið og voru síðan sterkari á lokakafla leiksins. Brasilíumenn voru komnir tveimur mörkum yfir í lokin en Bareinar skoruðu lokamark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×