Erlent

Loks sak­felldir fyrir að myrða Jam Master Jay

Samúel Karl Ólason skrifar
Jam-Master Jay, eða Jason Mizell, í New York árið 1986.
Jam-Master Jay, eða Jason Mizell, í New York árið 1986. AP/G. Paul Burnett

Tveir menn hafa verið sakfelldir fyrir morðið á listamanninum víðfræga, Jam Master Jay, úr hljómsveitinni Run-DMC. Hann var skotinn til bana í upptökuveri sínu í New York árið 2002 en það var ekki fyrr en árið 2020 sem þeir Karl Jordan Jr. og Ronald Washington voru ákærðir fyrir morðið.

Nú fjórum árum síðar hafa þeir verið sakfelldir fyrir morðið.

Mennirnir tveir eru sagðir hafa farið inn í upptökuver Jay, sem hét réttu nafni D.J. Jason Mizell. Þar hafi Washington þvingað fólk til að leggjast niður á meðan Jordan skaut Jay í höfuðið. Báðir voru grímuklæddir þegar morðið var framið.

Karl Jordan Jr. sem er nú fjörutíu ára gamall, var guðsonur Jay.

Samkvæmt frétt New York Times eru mennirnir sagðir hafa myrt Jay vegna deilna í kjölfar þess að þeir voru útilokaðir frá fíkniefnasölu.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt héraðsmiðilsins PIX11 News í New York.

Jay myndaði hljómsveitina Run-DMC með Joseph „Run“ Simmons og Darryl „DMC“ McDaniel á níunda áratug síðustu aldar. Þeir urðu frægir fyrir lög eins og It's Tricky og Walk This Way, sem þeir gerðu með hljómsveitinni Aerosmith.

Hljómsveitin spilaði ítrekað á tónleikum gegn fíkniefnaneyslu og var Jay þekktur fyrir opinbera andstöðu sína við fíkniefni. Nú segja saksóknarar þó að hann hafi flutt mikið magn af kókaíni til New York um árabil.

Sjá einnig: Tveir menn ákærðir fyrir áratugagamalt morðið á Jam Master Jay

Frægðarsól Run-DMC var ekki hátt á himni árið 2002 og er Jay sagður hafa snúið sér að fíkniefnasölu til að fjármagna lífstíl sinn og styðja fjölskyldu sína.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×