Skoðun

Taxi!

Þorsteinn Sæmundsson skrifar

Ég bið lesendur velvirðingar á að sletta í fyrirsögn en sú var tíð að hægt var að ná sér í leigubíl í Reykjavík með því að veifa og kalla frá gangstéttarbrún. Þú gast treyst því að laus bíll stöðvaði, stigið um borð og fengið örugga ferð heim að dyrum hvert sem ferðinni var heitið og greitt uppsett verð samkvæmt mæli. Þú gast gengið að því vísu að bílstjórinn skildi hvað þú sagðir og að hann rataði á áfangastað.

Ekki lengur. Sá og þó einkanlega sú sem kallar á leigubíl á Höfuðborgarsvæðinu eða tekur leigubíl í röð í Reykjavík eða við Leifsstöð veit ekkert hvaða þjónustu hann eða hún fær nema bíllinn sé merktur ábyrgri leigubílastöð. Veit ekkert um hvort bíll og bílstjóri uppfylli settar reglur. Veit ekkert um hvort bíll og bílstjóri eru skráð á leigubílastöð. Veit ekkert um hvort bílstjóri hefur tilskilin leyfi og réttindi. Veit ekkert um hvort leigubíllinn sé fulltryggður. Veit ekki fyrirfram hvort bílstjóri skilur þig eða ratar um Höfuðborgarsvæðið og nágrenni. Meðan þetta ástand varir eru þau ein óhult sem panta bíl með símtali eða appi ellegar aðgæta hvort leigubíll í röð sé merktur ábyrgri leigubílastöð.

Því miður eru nokkur mjög alvarleg og sár dæmi um reynslu af mislukkaðri „frelsun“ leigubílamarkaðarins og hafa ekki öll komið fram í dagsljósið. Þau alvarlegustu eru meint kynferðisbrot en einnig berast fréttir af ofrukkunum, hótunum um líkamsmeiðingar og fleira. Rökstuddur grunur er um að leigubílstjórar utan ábyrgra leigubílastöðva féfletti erlenda ferðamenn m.a. á leið til og frá Keflavíkurflugvelli. Það kemur óorði á íslenska ferðaþjónustu. Þessa þróun þarf að stöðva strax.

Einn stjórmálaflokkur stóð vaktina þegar lögum um leigubifreiðar var breytt og tafði framgang laganna nokkrum sinnum. Nefnilega Miðflokkurinn. Við marg vöruðum við þeim afleiðingum sem ,,aukið frjálsræði” í leigubílaakstri myndu hafa. Við lögðum ofuráherslu á öryggi farþega í hvívetna. En allt kom fyrir ekki. Að lokum máttum við ekki við margnum og málið var keyrt í gegn.

Það hlýtur að vera keppikefli allra að tryggja öryggi viðskiptavina þeirra sem nota þjónustu leigubifreiða. Það má ekki eyðileggja þá góðu og öruggu þjónustu sem byggst hefur upp undanfarna áratugi með fúski og fljótræði í nafni frjálsræðis. Breytum lögum nú þegar áður en fleiri alvarleg atvik verða.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og situr í stjórn Miðflokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×