Handbolti

Búin að vinna 46 titla á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kartrine Lunde hefur unnið allt og það mörgum sinnum. Hún er enn í fremstu röð orðin 43 ára gömul.
Kartrine Lunde hefur unnið allt og það mörgum sinnum. Hún er enn í fremstu röð orðin 43 ára gömul. Getty/Clicks Images

Sigurganga norska markvarðarins Katrine Lunde hélt áfram um helgina þegar hún varð norskur bikarmeistari með Vipers frá Kristiansand.

Hin 43 ára gamla Lunde hefur þar með unnið 46 titla á ferli sínum og er sigursælasta handboltakona sögunnar.

Hún er að spila lengur en þær flestar og er enn í hópi bestu markvarða heims enda enn lykilmaður í norska landsliðinu.

Lunde er uppalin hjá Vipers en fór erlendis að spila árið 2004, þá 24 ára gömul. Hún sneri aftur árið 2017 og hefur spilað með Kristiansand síðan.

Þetta er sjöundi norski bikarmeistaratitill hennar í röð og alls hefur hún unnið sextán titla með Vipers síðan hún kom aftur fyrir sjö árum.

Hún hefur sex sinnum orðið norskur meistari en varð líka fjórum sinnum ungverskur meistari, þrisvar sinnum danskur meistari og einu sinni rússneskur meistari.

Hún vann tvo bikarmeistaratitla í Danmörku og fimm bikarmeistaratitla í Ungverjalandi.

Hún hefur unnið Meistaradeildina sjö sinnum og EHF-bikarinn einu sinni.

Þá hefur hún unnið tíu gull með norska landsliðinu á stórmótum, tvö á Ólympíuleikum, tvö á heimsmeistaramótum og sex á Evrópumeistaramótum. Alls hefur Lunde unnið til átján verðlauna á stórmótum með norska landsliðinu.

Titlarnir eru því samtals 46. Sextán með norska félaginu, ellefu með ungverska félaginu, sjö með danska félaginu, tvo með rússnesku félagi og tíu með norska landsliðinu. Ótrúleg sigurganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×