Handbolti

Mikil­vægur sigur Hauka í bar­áttunni um annað sætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Inga Dís Jóhannsdóttir var markahæst í liði Hauka í dag.
Inga Dís Jóhannsdóttir var markahæst í liði Hauka í dag. Vísir/Diego

Haukar lögðu KA/Þór í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Sigurinn er mikilvægur í baráttu Hauka um 2. sæti deildarinnar.

Gestirnir frá Akureyri komust yfir á Ásvöllum og leiddu með allt að þremur mörkum í fyrri hálfleik. Það létu Haukar ekki á sig fá og komust yfir eftir að skora fjögur mörk í röð um miðbik fyrri hálfleiks. Leikurinn var jafn það sem eftir lifði hálfleiks og staðan jöfn 13-13 þegar gengið var til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik voru Haukar betri á öllum sviðum og unnu sannfærandi átta marka sigur, lokatölur 32-24.

Markahæst í liði Hauka var Inga Dís Jóhannsdóttir með 7 mörk. Þar á eftir kom Ragnheiður Ragnarsdóttir með 6 mörk og Elín Klara Þorkelsdóttir með 5 mörk. Hjá gestunum skoraði Isabella Fraga 10 mörk úr aðeins 13 skotum.

Haukar eru nú með 28 stig líkt og Fram en með leik til góða. Valur trónir sem fyrr á toppnum með 34 stig. KA/Þór situr áfram sem fastast á botninum með aðeins fimm stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×