Ísland átti erfitt uppdráttar framan af og var í raun alltaf skrefi eftir gestunum þangað til strákarnir sneru leiknum sér í vil í fjórða leikhluta. Sveiflan var gríðarleg og á endanum vann Ísland frábæran sigur, lokatölur 70-65.
Hvað skóp sigurinn?
„Orkustigið í seinni hálfleik, fann það að við lentum í sjö til níu stigum undir. Þá náðum við að vakna og spyrna okkur frá botninum.“
„Fannst Elvar (Már Friðriksson) og þeir strákar sem voru inn á seinni partinn í þriðja leikhluta setja tóninn. Þegar við náðum að fara þetta á smá geðveiki þá hörfuðu Ungverjar aðeins. Okkur tókst að drepa ryðmann hjá þeim sóknarlega, þeir fóru að taka erfið skot sem þýddi að við náðum að frákasta betur og hlaupa á þá. Náðum svo loks að koma helvítis tuðrunni ofan í körfuna.“

Hvernig er að halda spennustiginu rétt stilltu í svona leik?
„Þetta er alltaf jafn erfitt en þegar maður er kominn inn á gólfið og gleymir sér í augnablikinu finnur maður minna fyrir því. Erfiðara fyrir mig að vera á bekknum og fylgjast með undir lokin, ekki vanur því. Er mjög stoltur af strákunum og þeir stigu upp, sérstaklega í seinni hálfleik.“
Hvað þýðir sigur kvöldsins?
„Hann er risastór, við vissum að við þyrftum að verja Laugardalshöllina, heimavöllinn. Við eigum eftir að fara út og vissum að það yrði erfitt að byrja þetta í mínus með því að tapa gegn Ungverjum. Erum að horfa á þennan andstæðing sem liðið sem við ætlum að skilja eftir.“
„Við vitum að Tyrkland og Ítalía verða erfiðari verkefni en að sjálfsögðu förum við í þessa leiki til að vinna þá. Vitum að þetta verður erfitt svo þessi sigur er mjög stór, að geta farið með plús fimm stig til Ungverjalands, það er risastórt.“

Að endingu var Kristófer spurður hvað Ísland gæti tekið með sér úr þessum leik yfir í næsta leik sem er gegn Tyrklandi.
„Bara þetta orkustig sem við fundum í seinni hálfleik. Ef við ætlum að eiga séns í þessar stærri þjóðir þá þurfum við að vera villimenn og keyra þetta upp í smá íslenskt rugl eins og við höfum oft gert til að slá þessa stærri andstæðinga út af laginu. Þá er allt hægt, alltaf erfitt en við munum alltaf gefa okkur alla í þetta.“
