Viðskipti innlent

Dýrasta spilið kostar 140 þúsund krónur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gunnar Valur G. Hermannsson og Barði Páll Böðvarsson, eigendur Pokéhallarinnar.
Gunnar Valur G. Hermannsson og Barði Páll Böðvarsson, eigendur Pokéhallarinnar. Vísir/Sigurjón

Eina Pokémon-verslun landsins hefur stækkað við sig vegna mikillar velgengni. Stök spil geta kostað tugi þúsunda króna en eigendurnir segja viðtökurnar hafa farið fram úr þeirra björtustu vonum.

Pokéhöllin, eina verslunin á Íslandi sem sérhæfir sig í Pokémon-varningi, var opnuð fyrst árið 2021 í Glæsibæ. Velgengni búðarinnar varð til þess að eigendurnir fundu sig knúna til þess að stækka við sig og flytja í tvöhundruð fermetra húsnæði í Skeifunni.

Allt úti Pokémon-varningi

Í versluninni fæst allt til alls, Pokémon-spil, pakkar, bangsar, fígúrur, leikir og annar varningur. Fólk hefur gríðarlegan áhuga á öllu sem tengist þessum litlu skrímslum sem birtust fyrst á sjónarsviðinu árið 1996.

„Það var náttúrulega eftir aðv ið opnuðum hóp á Facebook þar sem við vorum að selja Pokémon og það var orðið allt of stórt. Það var bara glufa á markaðnum fyrir sérvöruverslun með Pokémon. Við ákváðum að kýla á það,“ segir Gunnar Valur G. Hermannsson, annar eigenda Pokéhallarinnar.

Hvernig hefur þetta gengið hingað til?

„Mjög vel. Fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Barði Páll Böðvarsson, einnig eigandi verslunarinnar.

Pokéhöllin er paradís Pokémon-aðdáandans.Vísir/Sigurjón

Rándýr spil

Að safna Pokémon-spilum er ekki ódýrt sport og kostar dýrasta spil verslunarinnar 137 þúsund krónur. Fólk er til í að greiða fúlgu fjár fyrir réttu spilin.

Er fólk að koma hingað að kaupa spil á þrjátíu þúsund krónur?

„Já, það er bara á hverjum degi sem það gerist,“ segir Gunnar.

Dýrasta spil verslunarinnar er ansi dýrt.Vísir/Sigurjón

Þá er hægt að fá enn meiri pening fyrir spilin þegar búið er að safna öllum úr sama settinu líkt þau sem eru í þessum ramma hér fyrir neðan, og fást saman á 250 þúsund krónur.

Téður rammi þar sem má finna öll spilin úr steingervinga-setti Pokémon. Verðmiðinn? Litlar 250 þúsund krónur.Vísir/Sigurjón

Er fólk að hengja svona upp á vegg heima hjá sér í stofunni við hliðina á sjónvarpinu?

„Eða bara taka sjónvarpið í burtu og setja þetta í staðinn,“ segir Gunnar.

Óopnaður pakki eldri en fréttamaður

Það er líka hægt að safna óopnuðum pökkum. Elsti pakkinn í versluninni var framleiddur árið 1999, ári áður en fréttamaður fæddist, og hefur aldrei verið opnaður.

„Maður var að kaupa þetta á fjögur hundruð kall í Pennanum eða BT, hvað sem þetta var. Og í dag er einn svona pakki að lágmarki á 45 þúsund krónur,“ segir Gunnar.

Pokémon-spilin eru misdýr og fylgir verðið hinni klassísku hagfræðijöfnu, framboð og eftirspurn.Vísir/Sigurjón

Ef ég kaupi svona pakka, er ég að opna hann?

„Ég persónulega myndi ekki opna hann því hann er 25 ára gamall og maður veit aldrei hvort maður fái spil sem kosta undir þúsund krónur eða hvort þú fáir spil sem kosta tíu, tuttugu, þrjátíu þúsund. Þannig maður veit aldrei hvað maður fær,“ segir Gunnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×