Körfubolti

Hinn körfu­bolta­strákurinn dó líka eftir hnífa­á­rásina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Artem Kozachenko lék með nítján ára liði ART Giants Düsseldorf.
Artem Kozachenko lék með nítján ára liði ART Giants Düsseldorf. @artgiants

Hnífstunguárásin á ungu úkraínsku körfuboltastrákana úr ART Giants Düsseldorf liðinu kostaði þá á endanum lífið.

Liðsfélagarnir voru staddir með félagsliði sínu í keppnisferð í þýsku borginni Oberhausen þegar hópur réðst á þá með hnífa á lofti.

Volodymyr Yermakov lést strax eftir árásina en liðsfélagi hans Artem Kozachenko lá í lífshættu á sjúkrahúsi. Hann lést af sárum sínum tæpri viku síðar. Félagið greindi frá þessu á miðlum sínum og minntist góðra félaga.

Báðir voru þeir átján ára körfuboltamenn frá Úkraínu sem höfðu flúið stríðið í heimalandinu og fengið griðastað hjá þýska körfuboltafélaginu í Düsseldorf.

Yermakov lést strax af sárum sínum en Kozachenko barðist fyrir lífi sínu í gjörgæslu í næstum því heila viku.

Vonir voru um að Yermakov myndi lifa af árásina en ástand hans versnaði skyndilega og á endanum gátu læknar ekkert gert til að bjarga honum.

Úkraínumenn halda því fram að árásin sé tengd innrás Rússa í Úkraínu en rannsókn lögreglu stendur yfir.

Strákarnir léku með nítján ára liði félagsins og ART Giants minnist þeirra á miðlum sínum.

„Eins og með Vova, þá var hinn átján ára gamli Úkraínumaður Artem mikilvægur hluti af nítján ára liði okkar. Við erum í miklu áfalli, syrgjum saman og þurfum að kveðja annan efnilegan körfuboltamann úr okkar röðum. Eins og með Vova þá var Artem einstaklega vinsæll liðsfélagi sem og hjá þjálfurum og vinum. Allir hafa bara jákvæða hluti að segja um hann. Auk þess að vera hæfileikaríkur og agaður við körfuboltaæfingarnar þá var Artem skemmtileg, húmorísk og fordómalaus manneskja. Artem og Vova voru miklir vinir og sýndu með því mikilvægi mannlegra tengsla og hversu dýrmætt gott samfélag er í okkar lífi,“ segir í minningarorðum um þá félaga á miðlum ART Giants Düsseldorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×