Handbolti

Fylgdi hjartanu og tók á­hættu

Aron Guðmundsson skrifar
Perla Ruth sneri aftur til uppeldisfélags síns Selfoss fyrir yfirstandandi tímabil og á hún stóran þátt í því að liðið hefur nú tryggt sér veru í deild þeirra bestu á nýjan leik.
Perla Ruth sneri aftur til uppeldisfélags síns Selfoss fyrir yfirstandandi tímabil og á hún stóran þátt í því að liðið hefur nú tryggt sér veru í deild þeirra bestu á nýjan leik. Mynd: UMF Selfoss

Ís­lenska lands­liðs­konan í hand­bolta, Perla Ruth Alberts­dóttir, þurfti að taka stóra á­kvörðun fyrir yfir­standandi tíma­bil. Átti hún að fylgja upp­eldis­fé­lagi sínu Sel­foss niður í næst efstu deild í endur­komu sinni eða halda á önnur mið? Perla á­kvað að halda tryggð við Sel­fyssinga sem hafa reynst ó­stöðvandi á tíma­bilinu og tryggt sér sæti í efstu deild á nýjan leik.

Því stað­reyndin var sú að þegar að Perla Ruth og for­ráða­menn hand­knatt­leiks­deildar Sel­foss náðu sam­komu­lagi, þess efnis að hún myndi snúa aftur til upp­eldis­fé­lagsins fyrir tíma­bilið 2023/24, var Sel­foss enn í efstu deild og voru ekki að horfa á deildina fyrir neðan sig.

Ör­lög liðsins voru hins vegar sú að lúta í lægra haldi fyrir liði ÍR í um­spili um laust sæti í efstu deild. Sel­foss þurfti því að bíta í það súra epli að falla niður um deild. Eitt­hvað sem lands­liðs­konan Perla, sem hefur á sínum ferli bæði lyft Ís­lands- og bikar­meistara­titlinum, og fé­lagið höfðu ekki ætlað sér.

„Já þetta var náttúru­lega ekki það sem hvorki ég, né aðrir í kringum fé­lagið, höfðum planað,“ segir Perla í sam­tali við Vísi um að­stæðurnar sem uppi voru eftir síðasta tíma­bil eftir fall Sel­foss.

„Fallið var tölu­verður skellur en fljót­lega sá maður bara tæki­færin í þessu og það hefur sýnt sig núna. Við erum búnar að græða ó­trú­lega mikið á þessari reynslu sem hópur og á sama tíma hefur þetta gefið fé­laginu ó­trú­lega mikið. Það er bara virki­lega gaman að allir tóku þátt í þessu verk­efni. Þetta er búið að vera mjög skemmti­legt tíma­bil sem hefur gefið okkur mikla reynslu. Þetta var heldur betur þess virði.“

Þú varst nú að taka tölu­verða á­hættu með á­kvörðun þinni að halda tryggð við fé­lagið er það féll úr efstu deild er það ekki? Svona ef við setjum þetta í það sam­hengi að þú hefur verið hluti af ís­lenska lands­liðinu og býrð yfir far­sælum tíma í efstu deild.

„Ég hugsaði það kannski ein­stöku sinnum (að þetta væri á­hætta). En það var alveg mjög fljótt að breytast yfir í það að sjá tæki­færin í þessu. Ég þekki þetta fé­lag mjög vel, veit hvaða metnaður býr í fólkinu í kringum fé­lagið. Ég vissi að allir sem ég var að fara vinna með hér, bæði leik­menn, þjálfararnir og fólkið í kringum liðið myndu standa sig með mikilli fag­mennsku. Það er gaman að ná að sanna þessa vissu mína svona.“

Perla Ruth í leik með íslenska landsliðinuVísir/Hulda Margrét

Og væntan­lega bara enn þá sætara að eiga þátt í því að hjálpa upp­eldis­fé­lagi sínu aftur upp í deild þeirra bestu?

„Al­gjör­lega. Maður gat alveg í­myndað sér, ef að ein­hverjir póstar hefðu ekki sagt já við því að vera á­fram með liðinu í næst­efstu deild, að Sel­foss myndi mögu­lega ekki tefla fram kvenna­liði í hand­boltanum á þessu tíma­bili. Það hefði verið auð­velt, ef ein­hverjar af okkar sterku póstum hefðu sagt nei við því að spila með liðinu á tíma­bilinu, að þær hefðu bara allar farið og að liðið hefði verið lagt niður.

Er ég í­myndaði mér það hugsaði ég um leið um alla fram­tíðar­leik­menn liðsins sem eru að æfa hér með yngri flokkunum á Sel­fossi. Það eru mjög efni­legir ár­gangar að koma upp hjá okkur og mögu­lega hefði ekki verið neitt meistara­flokkslið til staðar fyrir þær til að stíga upp í.

Ég er með Sel­foss hjarta og var ekki til í að láta það gerast. Það er virki­lega sætt að geta hjálpað fé­laginu með þessum hætti og að það hafi sömu­leiðis tekið svona stuttan tíma að búa til flottan grunn sem við ætlum svo að halda á­fram að vinna á.“

Stað­reyndin er sú að lið Sel­foss hefur verið ó­stöðvandi á yfir­standandi tíma­bili. Liðið hefur ekki tapað leik í næst­efstu deild og er sömu­leiðis komið í undan­úr­slit bikarsins og hefur á þeirri veg­ferð lagt af velli lið úr efstu deild.

Það sýnir sig að þetta lið sem þið eruð með í höndunum er allt of gott til þess að vera í næst­efstu deild er það ekki?

„Jú klár­lega. Við erum bara hundrað prósent sam­mála því og höfum sagt það alveg frá byrjun þessa tíma­bils. Það hefði verið rosa­lega auð­velt að taka bara þátt með það eitt fyrir augum að vera bara með í þessari deild. Við á­kváðum hins vegar að gera það ekki. Við vildum vera með yfir­burði í þessari deild, mæta af krafti og sýna mikla fag­mennsku. Ekki bara vinna leikina, heldur vinna þá öruggt og sýna hvað við erum góðar. Sem við erum búnar að ná að gera hingað til, bæði í deild og bikar þar sem að við erum búnar að vinna lið úr efstu deild með ég veit ekki hversu mörgum mörkum. Þetta hefur verið mikil fag­mennska og virki­lega vel gert hjá okkar flotta hóp.“

Og hefur Perla séð lið­sandann hjá þessu spræka liði Sel­fyssinga eflast eftir því sem líður á tíma­bilið.

„Þetta er bara einn besti hópur sem ég hef verið hluti af. Maður hugsar bara að það gerist allt af á­stæðu. Ef þetta hefði ekki gerst þá hefðum við aldrei fengið leik­menn eins og Hörpu Val­ey Gylfa­dóttur til okkar. Þetta fer allt eins og það á að fara og það sýnir sig virki­lega á þessu tíma­bili. Við byrjuðum þetta tíma­bil á góðri æfinga­ferð á Spáni þar sem að ein­beitingin var mikið á því að efla liðs­heildina. Það er heldur betur búið að vera skila sér í vetur. Þetta er frá­bær hópur sem er virki­lega vel sam­settur. Karakterarnir eru mjög skemmti­legir.“

En þó svo að deildar­meistara­titill næst­efstu deildar sé í höfn og þar með sæti í deild þeirra bestu á nýjan leik tryggt, er ætlunar­verki Sel­fyssinga á yfir­standandi tíma­bili ekki lokið. Fram­undan eru undan­úr­slit bikar­keppninnar og mögu­leiki á öðrum titli.

Það er væntan­lega mark­miðið hjá ykkur að valda enn þá meiri usla, gera at­lögu að bikar­meistara­titlinum?

„Auð­vitað. Það eru öll liðin með það mark­mið að vinna þennan bikar. Við ætlum bara að halda á­fram að fara inn í hvern leik og vinna að mark­miðunum okkar. Við settum okkur nokkur mark­mið fyrir tíma­bilið. Við höfum náð einu þeirra en það er enginn orðinn saddur. Við eigum enn þá alla­vegana tvö mark­mið í við­bót sem við erum að stefna að. Við höldum á­fram að mæta í hvern leik og gera betur en í síðasta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×