Skoðun

Þeir unnu mikið af­rek

Ingólfur Sverrisson skrifar

Mitt gamla stálhjarta sló mörg aukaslög í gleði og stolti þegar málmsuðu- og tæknimennirnir luku því gríðarlega vandasama verki í nótt að smíða og tengja hjáveitulögn yfir nýja hraunið og koma heita vatninu aftur til íbúanna. Það þarf mikla vandvirkni og fádæma elju til að sjóða saman slíka lögn úr gríðarlega þungum stálrörum þar sem beita þarf ýtrustu nákvæmni og hæstu faglegu gæðum og það úti á víðavangi þar sem vetur ríkir með frosti og nepju. Snillingarnir sem þetta gerðu þurftu að hita snertifleti þessara miklu röra að bræðslumarki og fylla síðan hvern millimetra þar á milli með málmblöndu úr rafsuðupinnum þannig að allt væri pottþétt, haldgóð og traust heild. Gríðarlegt nákvæmnisverk sem eingöngu er á færi bestu fagmanna. Þeir lögðu nótt við dag og luku verkinu á skemmri tíma en nokkur þorði að vona. Sýndu með því að hér voru ekki einhamir menn að verki heldur þeir sem lögðu allt í sölurnar til að tryggja fólkinu á Suðurnesjum birtu og yl. Við tökum ofan fyrir þessum mönnum og þökkum þeim fyrir að nýta faglega hæfileika sína, elju og útsjónarsemi til hagsbóta fyrir aðra. Þeir eru þjóðarsómi.

Höfundur er eftirlaunaþegi og fyrrum forstöðumaður Málm- og véltæknisviðs Samtaka iðnaðarins.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×