Körfubolti

„Þú færð engar fyrir­sagnir upp úr mér“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jóhann Þór var eðlilega sáttur með sigur sinna manna.
Jóhann Þór var eðlilega sáttur með sigur sinna manna. Vísir/Vilhelm

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var eðlilega léttur eftir átta stiga sigur sinna manna gegn Þór í Þorlákshöfn í kvöld. Hann segir þó að sigurinn hafi verið nokkuð torsóttur.

„Það er ekki við öðru að búast. Þórsararnir eru góðir á sínum heimavelli og með hörkulið,“ sagði Jóhann Þór í leikslok.

„Þetta var bara svona stál í stál og við einhvernveginn kreistum þetta bara út í restina, eða síðustu kannski 7-8 mínúturnar. Við setjum stór skot á skotklukkunni sem gaf okkur ákveðið sjálfstraust, við fengum stopp og kreistum þetta út. Þetta hefði getað farið hvernig sem er.“

Hann segir sína menn hafa sýnt karakter með því að kveikja á sér á réttum tímapunkti og sigla sigrinum heim í jöfnum leik.

„Þetta voru aldrei nema tvö, þrjú eða fjögur stig, í mesta lagi fimm, og eins og ég sagði áðan þá var þetta bara stál í stál og risastórt fyrir okkur að ná í góðan sigur á erfiðum útivelli. Ég er bara ánægður með heidarframmistöðuna lengst af og þetta var bara geggjaður sigur.“

Grindvíkingar hafa nú unnið sjö deildarleiki í röð og eru orðnir jafnir Keflavík, Njarðvík og Þór í 2.-5. sæti deildarinnar, en Jóhann segist ekki endilega vera með einhverja töfralausn til að halda þessu góða gengi áfram.

„Þetta er bara gamla tuggan og engin geimvísindi. Það er bara næsti leikur. Þú færð engar fyrirsagnir upp úr mér, ég er með góða menn í því,“ sagði Jóhann léttur.

„Við erum bara að fara í Hveragerði eftir viku og svo kemur gott frí. Það er búið að vera sláttur á liðinu eins og maðurinn sagði, sem er jákvætt, og þetta gefur okkur bara helling inn í lífið og tilveruna. Þannig að við ætlum bara að halda þessu áfram eins lengi og hægt er held ég bara,“ sagði Jóhann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×