Handbolti

Læri­sveinar Guð­mundar styrktu stöðu sína við toppinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er að gera góða hluti með lið Frederecia.
Guðmundur Guðmundsson er að gera góða hluti með lið Frederecia. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í danska handboltanum styrktu stöðu sína í öðru sæti deildarinnar með sigri í kvöld. Halldór Jóhann Sigfússon og lið hans Nordsjælland mátti hins vegar sætta sig við stórt tap.

Fyrir leik Frederecia og Ringsted í kvöld var Frederecia í öðru sæti dönsku deildarinnar með 30 stig, fimm stigum á eftir toppliði Álaborgar og fjórum stigum á undan Bjerringbro-Silkeborg sem var í þriðja sæti.

Frederecia var með frumkvæðið í upphafi og var yfirleitt einu til tveimur mörkum á undan heimamönnum. Staðan í hálfleik var þó 13-13 en gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn vel og komust mest fjórum mörkum yfir.

Heimamenn komu þó til baka á nýjan leik og þegar innan við mínúta var eftir munaði aðeins einu marki. Nær komust heimamenn þó ekki og Frederecia vann að lokum 24-23 sigur. Einar Þorsteinn Ólafsson var í liði Frederecia í dag en tókst ekki að skora.

Halldór Jóhann Sigfússon og hans menn í Nordsjælland mættu Sönderjyske á útivelli. Liðin voru hlið við hlið í deildinni og gat Nordsjælland jafnað heimamenn að stigum með sigri.

Það gerðist þó ekki. Strax í fyrri hálfleik náði heimaliðið góðri forystu og leiddi 18-12 í hálfleik. Þann mun náðu gestirnir ekki að brúa. Lokatölur 32-24 Sönderjyske í vil sem skilur þar með Nordsjælland fjórum stigum fyrir aftan sig.

Halldór Jóhann hættir með lið Nordsjælland að tímabilinu loknu og tekur við HK í Olís-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×