Handbolti

Ís­land mætir Eist­landi eða Úkraínu í umspili fyrir HM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Árangur Íslands á EM gerði útaf við Ólympíudrauminn og setti liðið í umspilsleik fyrir HM.
Árangur Íslands á EM gerði útaf við Ólympíudrauminn og setti liðið í umspilsleik fyrir HM. VÍSIR/VILHELM

Ísland mun spila tvo umspilsleiki við annað hvort Eistland eða Úkraínu um sæti á HM í handbolta 2025. 

Eistland og Úkraína mætast fyrst sín á milli dagana 13. og 17. mars. Sigurvegari úr því einvígi mætir svo Íslandi í tveimur umspilsleikjum um sæti á HM þann 9. og 11. maí næstkomandi.

Evrópa á sautján sæti á mótinu sem fer fram í Danmörku, Noregi og Króatíu. Gestgjafaþjóðirnar fá sjálfkrafa þátttökurétt á mótinu. Auk þeirra hafa Frakkland, Svíþjóð og Þýskaland tryggt sér sæti með góðum árangri á EM. 

Þá eru ellefu sæti eftir sem spilað verður um með umspilsleikjum dagana 9. og 11. maí 2024. 

Ísland var í efri styrkleikaflokki ásamt Slóveníu, Ungverjalandi, Portúgal, Austurríki, Hollandi, Spáni, Svartfjallalandi, Tékklandi, Póllandi og N-Makedóníu. 

Mögulegir andstæðingar, úr neðri styrkleikaflokki, voru Georgía, Serbía, Færeyjar, Sviss, Rúmenía, Grikkland, Bosnía & Hersegóvína. 

Auk þeirra voru í pottinum sigurvegar úr leikjum Slóvakíu gegn Ísrael, Eistlands gegn Úkraínu, Belgíu gegn Ítalíu og Finnlands gegn Lithéan, sem fara fram 13.–17. mars næstkomandi. 

Hér fyrir neðan má sjá heildarniðurröðun allra umspilsleikja. 

Allir umspilsleikir fyrir HM skjáskot / IHF livestream



Fleiri fréttir

Sjá meira


×