Viðskipti innlent

Sesselja Ingi­björg stýrir frumkvöðlastarfi Sam­herja

Árni Sæberg skrifar
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir hefur komið víða við í íslensku atvinnulífi.
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir hefur komið víða við í íslensku atvinnulífi. Axel Þórhallsson/samherji

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Driftar EA á Akureyri, félags sem hefur það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Stofnendur félagsins eru frændurnir Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson, kenndir við Samherja.

Í tilkynningu þess efnis segir að Sesselja Ingibjörg sé með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, síðustu þrjú ár hafi hún verið framkvæmdastýra nýsköpunar- og orkuverkefnisins EIMS.

Þá hafi hún undanfarin ár starfað með ýmsum fjárfestum, bæði sem frumkvöðull og fjárfestir. Undir hennar forystu grasrótarhreyfingin Norðanátt verið stofnuð, sem er hreyfiafl nýsköpunar. Sesselja Ingibjörg hafi einnig starfað sem ráðgjafi stjórnvalda varðandi nýsköpun.

Sesselja Ingibjörg er með BA gráðu í lögfræði, sveinspróf í framreiðslu og hefur lokið MBA-námi í viðskiptum og stjórnun.

Til húsa í gamla Landsbankahúsinu

Í tilkynningu segir að í starfsemi Driftar EA verði lögð áhersla á verkefni á sviði matvælaframleiðslu, heilbrigðis- og lækningavöruframleiðslu, líftækni, hugbúnaðarlausna fyrir sjávarútveg og grænna lausna.

Við undirbúning stofnunar Driftar EA hafi verið haft samráð við innlenda og erlenda aðila á ýmsum sviðum nýsköpunar- og fjárfestinga.

Líkt og greint var frá rétt fyrir jól verður starfsemi Driftar EA í gamla Landsbankahúsinu við ráðhústorgið á Akureyri.

Ný sókn í atvinnumálum á svæðinu

„Þeir Kristján og Þorsteinn Már hugsa augljóslega stórt með stofnun Driftar EA, eins og oft áður. Allur undirbúningur hefur verið afar metnaðarfullur og með samstarfi við sérhæfða innlenda og erlenda aðila aukast möguleikar á að starfsemin skili raunverulegum árangri í framtíðinni.

Með stofnun DRIFTAR EA er að hefjast ný sókn í atvinnumálum á Eyjafjarðarsvæðinu og táknrænt er að starfsemin verður í rótgrónum húsakynnum í hjarta Akureyrar, þar sem frumkvöðlar og fyrirtæki fá vel búna aðstöðu til að vinna hugmyndum sínum framgang innan og utan landsteinanna. Það eru því skapandi tímar framundan og ég hlakka til að vera hluti vel mannaðar áhafnar,“ er haft Sesselju Ingibjörgu í tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×