Handbolti

Að­eins Frakkar hafa skorað fleiri mörk en Ís­land í tómt mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það eru fáir leikmenn hættulegri í miðjuhringnum en einmitt Elliði Snær Viðarsson.
Það eru fáir leikmenn hættulegri í miðjuhringnum en einmitt Elliði Snær Viðarsson. Vísir/Vilhelm

Björgvin Páll Gústavsson varð í sigrinum á móti Króatíu fjórði leikmaður íslenska landsliðsins sem hefur skorað í tómt mark á Evrópumótinu í handbolta í ár.

Íslenska liðið hefur skorað alls níu sinnum í tómt mark andstæðinganna og það úr aðeins tíu skotum.

Það eru aðeins Frakkar sem hafa skorað fleiri slík mörk á mótinu til þessa en franska landsliðið er með tólf mörk úr fjórtán skotum í tómt mark.

Þjóðverjar, Spánverjar og Hollendingar eru allir tveimur mörkum á eftir íslenska liðinu í þessum tölfræðiþætti en spænska liðið náði þessu þó aðeins í þremur leikjum.

Elliði Snær Viðarsson er auðvitað langatkvæðamestur í íslenska liðinu en hann hefur skorað fimm sinnum í tómt mark og aðeins klikkað einu sinni á slíku skoti. Elliði hefur þróað mjög sérstakt og skilvirkt skot úr miðjuhringnum sem er að skila mörgum mörkum.

Viggó Kristjánsson er með tvö slík mörk og þeir Björgvin Páll og Bjarki Már Elísson hafa skorað eitt hvor.

Dylan Nahi er sá Frakki sem hefur skorað oftast í tómt mark eða þrisvar sinnum en átta leikmenn franska liðsins hafa skorað mark áður en markvörður mótherjanna komst aftur í markið.

  • Flest mörk í tómt mark til þessa á EM 2024:
  • 12 - Frakkland
  • 9 - Ísland
  • 7 - Spánn
  • 7 - Þýskaland
  • 7 - Holland
  • 6 - Króatía
  • 5 - Austurríki
  • 5 - Danmörk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×